Kannast einhver við tilfinninguna?
Ég þjáist af krónísku síð-annar-stressi, sem er alveg áreiðanlega hugtak í sálfræðinni. En núna eru einkennin af þessu með þeim sterkari sem ég hef upplifað, ég held ég hafi ekki verið svona slæm síðan í próflestrinum fyrir vorprófin á fyrsta árinu mínu í MR. Þá hafði ég mína afsökun, enda var stökkið á milli grunnskóla og framhaldsskóla stórt, og ég hélt annað hvort að MR væri bara fyrir ofurgáfað fólk, eða að ég væri alveg laus við gáfur sjálf (hugsanlega hafði ég fulla trú á að bæði ætti fullvel við). En nú er þetta stress búið að taka sig upp í engu minni mæli. Ekki bara af því að það er mikið að gera heldur af því að það er svo hræðilega mikið í húfi; -ég hef aldrei mátt eins lítið við því að falla á prófum og núna. Og það þarf auðvitað að byrja á því að gera verkefni sem ég kann ekki og get ekki. Einkennin eru ekkert grín; svefntruflanir, eirðarleysi, lystarleysi, einbeitingartruflanir, unglingabólur og jafnvel hárlos. Mér er skapi næst að skríða inn í lokaða skel, setja mig í fósturstellingu, og bíða þar til ósköpin eru yfirstaðin, og sjá þá hvort ég sé ekki örugglega með 10 í öllu þegar uppi er staðið.
Í bili held ég að næstbesta lausnin sé hvað hentugust; að ná mér niður með bjórdrykkju ásamt Ungum Jafnaðarmönnum í kvöld. Klikkar ekki.
posted by Hildur at 2:11 PM
Menningarsjokk
Það er svo svo skrítið, að það er allt í lagi að vera með fordóma gagnvart sumu fólki og fyrirbærum (til dæmis Norðmönnum), en það er illa séð að vera á móti til dæmis landsbyggðafólki. Allavegana fékk ég aðeins að heyra það fyrir síðustu færslu og til að halda öllum sæmilega yfirveguðum langar mig aðeins til að útskýra mál mitt. Ég er kannski ekkert á móti landsbyggðafólki... en landsbyggðin minnir mig bara óneitanlega svo mikið á mesta menningarsjokk sem ég hef á ævi minni fengið. Ég hef aldrei búið úti á landi, þótt ég sé reyndar, eins og flestir vita, fyrrverandi ungfrú Stöðvarfjörður sem er annað mál. En ég hef dvalist í um fimm ár samtals erlendis, þó einungis innan Evrópu. Menningarsjokk mín erlendis hafa verið lítilvæg hingað til, jafnvel þótt ég hafi reyndar komið til Kulusuk. Ég á þó auðvitað alltaf eftir að fara nógu langt til þess að hitta goðsagnirnar um "úgga-búgga" fólk sem borðar mannakjöt. Það yrði væntanlega mitt stærsta menningarsjokk og ég vona að þau verði södd þegar ég hitti þau að máli. En þangað til það gerist mun ég alltaf minnast með hryllingi einnar sveitaferðar sem ég fór í með skólanum þegar ég var þetta sjö eða átta ára gömul. Við fórum í rútu einhvert austur og norður á land til að skoða sveitalífið og dýrin. Það var nú aldeilis upplitið á minni þegar okkur var gert að fara inn í fjós, og þverneitaði ég að labba þarna inn. Lyktin út úr þessu húsi var hræðileg, og ásýnd beljanna og svínanna ekki glæsileg. Ég hélt nú ekki að ég ætlaði að hætta mér í þessa ólykt og nálægt þessum vígalegu dýrum, þannig að ég stóð í dyragættinni, með sólgleraugu og í svona grifflum, og hélt fyrir nefið; -dæmigerð veimiltíta af mölinni. En allt í lagi með það, ég jafnaði mig fljótt og hætti mér inn í næsta hús sem var hlaðan, enda var þar bara hey og svo ein læða með óskaplega sæta kettlinga. En úr hlöðunni vorum við dregin og þurftum að labba svolítið langt þar til við komum að pínulitlum kofa. Það var eldgömul kona sem sýndi okkur stolt þennan "reykjarkofa", þar sem kjötið var taðreykt. Það út af fyrir sig að sú aðferð væri beitt við vinnslu kjötsins var nógu ógeðfellt í okkar flestra augum, en það gerði algerlega útslagið að sjá merkimiðana á kjöthleifunum sem héngu þarna; þeir voru merktir nöfnunum á vesalings skepnunm sem fórnað var fyrir taðreykingarnar. Einn var til dæmis merktur "Huppa" og annar "Dúlla". Og gamla konan tók upp vasahníf, skar sér væna flís af "Dúllu" og kjamsaði á henni og sagði: "Ja hún fer bara að verða tilbúin, svona meyr og fín."
Ég fékk auðvitað siðferðislegt áfall og fyllist enn hryllingi við tilhugsunina um þetta. Þannig að í hvert sinn sem einhver spyr mig hvort ég sé utan af landi (sem gerist stundum) er mér skapi næst að svara með þjósti: "Nei!! Ég ét ekki vini mína!!"
posted by Hildur at 8:05 PM
Svo ég haldi nú áfram að vísa í annarra manna blogg vil ég benda ykkur á tengilinn hér til hliðar á bloggsíðu systur minnar Evu Kamillu. Ég geri ekki annað þessa dagana en að vísa í aðra. Þið getið komið hingað til að fá ráðleggingar um hvað þið eigið að skoða! Já sei sei.
En Kamilla hefur alltaf sagt að það væru bara lúðar sem blogguðu, og fundist þessi iðja mín og fleiri í hæsta máta egóísk og mikil tímasóun. En svo má hún núna éta þetta allt ofan í sig. Það er svo gaman að blogga.
Það er reyndar ósjaldan sem undirrituð hefur mátt éta ofan í sig eigin foróma. Ég hef til dæmis oft afskrifað algerlega ákveðna tónlistarmenn, manneskjur og málefni, og síðan neyðst til að skipta um skoðun. Það er skömmustulegt en maður neyðist til að láta sig hafa það. Ég hef ákveðinn grun um hvernig manni ég á eftir að giftast. Ég held nefnilega að ég, fordómabúntið og öfgafemínistinn, eigi eftir að giftast manni sem er: Norðmaður, landsbyggðapakk, karlremba, misskilinn listamaður, tískulögga sem er með fríkaða hárgreiðslu og býr í frystikistu.
Allt sem ég lít hvað mest hornauga.
posted by Hildur at 10:44 AM