Ég er alltaf að hitta fólk, ótrúlegasta fólk, sem ég þekki lítið en kveðst lesa bloggið mitt. Í raun er það gaman útaf fyrir sig... En hugsanlega eru það bara þeir sem þekkja mig best sem vita hvenær mér er alvara og hvenær ég er að grínast. Sjaldnast tek ég það fram, fólk á bara að vita það. En hvernig getur fólk úti í bæ vitað hvar mörkin liggja? Það er svosem allt í lagi ef það heldur að allur sannleikurinn sé grín... En ég get ekki sagt annað en: Hjálpi hverjum þeim, sem tekur öllum skrifum mínum alvarlega, hvert það hindurvitni eða náttúrufyrirbæri, sem viðkomandi kýs að trúa á!
posted by Hildur at 6:18 PM
Afnemum boðháttinn!Það vantar eitthvað orð í íslensku sem er samsvarandi orðunum "please" á útlensku, "bitte" á þýsku, "por favor" á spænsku, "alstublijft" á hollensku og svo framvegis. Orðin
vinsamlegast og
viltu gjöra svo vel eru alltof óþjál og óhentug.
Fyrir vikið er boðhátturinn algert eitur í mínum beinum. Ég þoli ekki þegar fólk talar við mig í boðhætti, eða reyndar þegar fólk reynir að ráðskast með mig og skipar mér fyrir, eða yfir höfuð hefur eitthvert vald yfir mér. Hins vegar er mér ekkert á móti skapi að hafa sjálf vald yfir öðrum. Hvað er hægt að gera til að sigrast á boðháttarskrímslinu?
Næst þegar einhver dirfist til að yrða á mig í boðhætti ætla ég að taka viðkomandi skella honum í jörðina, setja leðurgrímu yfir andlitið á honum og flengja lengi og fast með brennivínssleginni leðuról.
posted by Hildur at 3:13 PM