Frá því að ég var unglingur hafa alltaf verið á markaðnum svokölluð götublöð fyrir ungt fólk. Ég held ég hafi ákveðið að þau væru ekki minn tebolli þegar ég var svona 18 ára, þótt ég hafi síðan þá gluggað í þau við og við ef þau hafa birst fyrir framan nefið á mér af tilviljun. Í gær gerðist það þegar tímaritið Sirkus var statt í afmælisveislu þar sem ég var gestur. Þess má geta að ég veit vel að ég er hin mesta tepra og mér finnast svona blöð vel eiga rétt á sér þrátt fyrir að þau séu á stundum of gróf fyrir mig, í víðum skilningi. Ég hins vegar get ekki annað en leyft mér að hneykslast á sumu af því sem í þeim stendur. Til dæmis í þessu Sirkusblaði sem ég kíkti í í gær. Þar var meðal annars viðtal við einhverja fegurðardrottningu, eða sem hafði lent í einhverju sæti í slíkri keppni. Allt í lagi með það, nema að ein spurningin hljóðaði á þá leið:
Af hverju mótmælir bara ljótt fólk? (ath, það var ekki verið að vísa í fólk sem leyfir sér að hafa skoðun á menningarfyrirbærinu
fegurðarsamkeppnum (
sem er auðvitað "alveg glatað" að þykja annað en frábærar og hin besta skemmtun)) heldur var hreinlega verið að spyrja af hverju fólk sem hefði fyrir því að mótmæla væri einungis úr röðum ljóta fólksins) og svar hennar var einhvern vegin á þá leið að
Líklegast væri það vegna þess að það (ljóta fólkið) væri óöruggt með sjálft sig.
Ég á ekki til orð. Í fyrsta lagi, er kominn einhver almenn samstaða um það hér á landi að það sé svo púkalegt að mótmæla að einungis ljóta fólkið leggist svo lágt að standa í því? Í öðru lagi, hvað koma mótmæli (auðvitað á öðru heldur en fegurðarsamkeppnum) sjálfsóöryggi við?
Í byrjun ársins 2003 bjó ég í Madríd og Bandaríkjamenn og Bretar ákváðu að ráðast inn í Írak í fullum órétti, og einstaka ráðamenn þjóða eins og Íslendinga og Spánverja ákváðu að skrifa undir samþykki sinna þjóða fyrir þeirri vitleysu. Viti menn, Spánverjar urðu réttilega ævareiðir, enda meira en 90% þeirra mótfallnir innrásinni. Á hverjum degi í ég veit ekki hvað langan tíma þusti fólk út á götur og mótmælti hástöfum, Spánverjar sem fannst sér misboðið með slíkum ósóma og að minnsta kosti einn Íslendingur sem tók undir það sjónarmið. Hundruðir þúsunda mættu á götur og torg Madrídarborgar á hverjum degi með mótmælaspjöld á lofti og ófáum misbauð að horfa á viðbrögð lögreglumanna við athæfinu, en þeir sendu fólk á spítala fyrir það eitt að tjá sig eða standa of nálægt þeim. Ekki löngu síðar var ríkisstjórn Spánverja felld og viðtók ný sem kallaði spænskt herlið til baka frá Írak. En mitt í mótmælaöldunni sem ég auk milljóna Spánverja um allt land tók þátt í kíkti ég inn á mbl.is þar sem aðalfréttin var sú að tuttugu (minnir mig) leiklistarnemar hefðu með táknrænum hætti mótmælt fyrir framan bandaríska sendiráðið í Reykjavík. Nú og skömmu síðar hélt ríkisstjórnin velli hér á landi.
Ég læt það vera að plebbar skuli hafa önnur áhugamál en að mótmæla. Það er þó leiðara að plebbisminn skuli ríða röftum að svo miklu marki hér á landi að litið sé niður á mótmæli, þau þyki púkaleg með eindæmum og mótmælendur séu stimplaðir ófríðir og að ályktað sé að ljótleiki þeirra valdi þeim sjálfsóöryggi og því skulu þeir dirfast að hafa skoðanir á málefnum líðandi stundar.
Mér finnst það allavegana miður. Plebbar mega mín vegna halda áfram að fyrirlíta opinber skoðanaskipti á því sem raunverulega skiptir máli. Því alltaf verður til fólk eins og ég og fleiri sem erum blessunarlega nógu laus við dýrkun á eigin spegilmynd að við stöndum í því að ástunda lýðræði.
posted by Hildur at 9:55 PM
Kræst!Ég var að fá að heyra nokkuð sem ég er farin að frábiðja mér að heyra nú til dags. -Nei, ekki að það ætti að skera mig niður hjá Fróða, slapp við það- heldur tilkynnti ónefndur aðili mér með bros á vör að hann þekkti einn ungan mann sem væri alveg kjörinn "fyrir mig". Einhverjir kynnu að furða sig á andstöðu minni við slíkar tillögur, en málið er að þetta var ekki í fyrsta skiptið sem slíkri er varpað fram, og ekki annað eða þriðja slíka skiptið heldur. Og ég hef áður tekið slíkum hugmyndum með ágætis hlutleysi og opnum huga, en í þeim tilfellum sem ég hef gert það og þeir menn hafa verið það sem ég vil að þeir séu - fallegir, gáfaðir og jafn klikkaðir eins og ég sjálf- þá hefur komið fyrir að ég hef lent á séns hjá þeim og síðan endað á bömmer yfir þeim. Ég viðurkenni reyndar að mér finnst þrælskemmtilegt að lenda á séns hjá mönnum og jafnvel enn skemmtilegra að enda á bömmer yfir þeim. En í þessum tilfellum þar sem þriðji aðili hefur kynnt mig einhverjum herramanninum þá hefur verið um að ræða félagslega bælda gaura, súrar listaspírur, framsóknarmenn, bullara, karlmódel, kristilega íhaldsmenn, hnakka eða guð má vita hvað. Það er svosem út af fyrir sig allt í lagi að lenda á bömmer yfir gaurum sem eru eitthvað eða allt af ofangreindu -en leiðinlegast er þegar maður hefur einhverja þriðju manneskju til þess að kenna um allt. Þess vegna frábið ég mér skipulagðar kynningar.
posted by Hildur at 4:09 PM
Ég er rebelÍ dag væri gott að brjóta odd af oflæti sínu og byrja að
reykja
posted by Hildur at 10:12 AM
Ég veit ekki hvort ég á að vera að röfla yfir pólitík, ég er algerlega komin með upp í kok af henni. Ég verð samt að viðurkenna að ég var farin að hafa eilítin skilning á umkvörtunum Framsóknarmanna yfir því að þeir væru að gjalda fyrir ríkisstjórnarsamstarfið á meðan íhaldið sæti á friðarstóli. En sá skilningur er farinn andskotans til núna, af skiljanlegum ástæðum.
Héðan í frá held ég mig hér við umfjallanir um selebbin sem ég hitti, svaðalegar frásagnir af vinnunni, ræktinni og sjónvarpinu sem mér eru svo hugleikin og asnalegar sögur af djamminu. Það er líka eina vitið.
posted by Hildur at 11:14 AM
Kosningarnar voru vonbrigði, ég neita því ekki. Ég bara trúi ekki að framtíð Reykjavíkur sé í höndum afturhaldsaflanna í D og F lista. En það verður ekki á allt kosið. Við vinnum alþingiskosningar á næsta ári.
Stemmingin á Broadway hjá mínum flokki var súr, eins og gefur að skilja. Ég og annar jafnaðarmaður kíktum því við í gleði hjá Sjálfstæðismönnum á Nordica en það var eiginlega engin gleði. Eða kannski hjá þeim, en mér fannst vanta alla vinstrimennsku í teitið þannig að ekki var stoppið langt. Tékka kannski á vinstri grænum næst. Eða framsókn.
Annars er það að frétta að ég hef greinilega gefið einhverjum gemsanúmerið mitt niðri í miðbænum. Það væri ekki frásögur færandi nema af því að í gær var hringt í mig þrisvar úr númeri sem tilheyrir kvenmanni... Sjitt
posted by Hildur at 12:47 PM