Í gær skellti ég mér ásamt öðrum góðum frökenum á 101 bar að drekka kokteila. Eða reyndar bara einn kokteil, málið var að hin mjög svo pirraða þjónustustúlka "lét mig ekki eiga neitt inni hjá henni" heldur krafðist þess að ég pantaði áður en ég náði að kíkja á kokteilalistann þannig að ég pantaði bara Mojitó eins og einhver byrjandi. En um leið og ég sá listann sá ég eftir að hafa ekki pantað Long Island Ice Tea sem var til og ákvað að ég myndi fá mér hann næst. Svo þegar Mojitóinn var búinn strunsaði sama þjónustustúlka að borðinu og henti reikningnum í okkur. Við túlkuðum það á þá leið að við værum ekki aufúsugestir í hennar augum þannig að við færðum okkur um set og á stað þar sem engir kokteilar voru í boði.
En nú er ég búin að ákveða að næst þegar ég fer í kokteilaþamb ætla ég að fá mér Long Island Ice Tea og jafnvel búa hann bara til sjálf.
Er þetta ekki góð saga?
posted by Hildur at 5:30 PM
HorbjóðurÝmislegt lærir maður af því að liggja yfir erlendum fréttamiðlum allan liðlangan daginn. Vissuð þið til dæmis að til er stofnun í Bandaríkjunum sem heitir Death Penalty Information Center?
posted by Hildur at 10:46 AM
Stundum þegar ég er í hugaræsingi byrja ég allar setningar á orðunum "Sjitt, veistu hvað?..." Svo segi ég líka oft "Dísis". Samt verð ég tuttugu og sjö ára gömul eftir rúma fjóra mánuði og ekki við hæfi að manneskja á þeim tímapunkti í lífinu sé gelgja.
En hvað getur maður gert? Ég var mjög alvörugefið barn þangað til ég breyttist í ögn glaðværari gelgju. Ég stórefast um að ég geti verið glaðvær ekki-gelgja. Þá get ég alveg eins bara breyst aftur í barn.
posted by Hildur at 2:53 PM
Til hamingju með árið!Gamlárskvöld var harla ómerkilegt hjá mér, ég borðaði mat með fjölskyldunni, fór með henni upp á Klambratún á miðnætti að horfa á flugelda og verða fyrir nokkrum slíkum af hendi einhverja vanvita sem stóðu nálægt og voru nógu drukknir til að snúa einni tertunni vitlaust svo dæmi séu tekin. Nælonsokkabrókin sem ég var í sviðnaði rétt fyrir ofna hægra hnéð (án þess þó að ég brenndist sjálf) og mátti ég svo standa í ströngu við að dusta púður- og flugeldapappírsleifar úr hárinu á mér.
Ég sleppti því að djamma síðar um kvöldið og fór þess í stað heim til mín -í miðbænum nóta bene- og skalf þar úr aulahrolli yfir hópi af fólki sem stóð beint fyrir utan húsið mitt og kyrja þjóðsönginn. Fyrir utan það hvað þjóðsöngurinn er óáheyrilegur í sjálfu sér verður hann hreinasta hörmung þegar ófaglærðir söngvarar raula hann auk þess sem slíkur gjörningur ber vott um þá andstyggð sem þjóðerniskennd er. Já ég veit ég er pólitískt rétttrúuð en ég er líka bara stolt af því.
Ég vona að árið 2007 verði ykkur og sjálfri mér gott.
posted by Hildur at 6:16 PM