Góðan og blessaðan dag allir morgunhanar!!!
Þessa kveðju tek ég ekki undir sjálf þar sem ég er einstaklega mygluð og þreytt eins og alla morgna. Ekki síst þegar ég hef unnið í 14 tíma daginn áður og endurtek þann leik í dag. Það má því með sanni segja að ég hef afskaplega lítið að segja í dag. En
Nóa kroppið sem ég át í morgunmat er bót í máli og eitt og sér ástæða til að fagna. Man einhver hvað þetta er gott? Namm! Sérstaklega á morgnanna með vatnsglasi og í fastandi maga. Einhverjar mannvitsbrekkur myndu kannski ætla að þetta væri óhollt, en því er ég ekki sammála. Aðal uppistaðan í mínu fæði er hvítur sykur og hörð fita, og kenni ég mér einskis meins! Á diskinn minn?? -
Kólesteról!
posted by Hildur at 9:02 AM
Bíddu halló halló, hvað er eiginlega vefhringur? Heiða Dögg og Bryndís kenndu sig allavegana við einhvern "web ring" þegar þær gerðust svo liðlegar að skrifa í gestabókina mína. Ég er viss um að þetta er eitthvað merkilegt!
Ég ætla ekki að skrifa of mikið í dag. Það er þriðjudagur, ekkert merkilegt hefur á daga mína drifið síðan síðast, og ég er tussuleg eins og vanalega á þriðjudögum. Það má ekki smitast!
posted by Hildur at 1:46 PM
Nú er ég loksins orðin kvikmyndastjarna eins og mig hefur alltaf dreymt um. Á föstudag fórum við Júlía Margrét nefnilega í víking austur í Mosfellssveit þar sem hin víðfræga mynd Stella í framboði var fest á filmu (það er að segja, eitt atriði í henni). Staðurinn var Álafoss föt bezt og tilefnið var kosningafundur Centrum listans, og má þar sjá okkur Júlíu í líki fundargesta. Ég segi nú bara nú fara peningarnir fyrst að streyma inn!
Svo var menningarnótt á laugardaginn, og Þórey Sif hélt teiti. Þar var margt um manninn en eigi mun ég hafa þekkt nema í mesta lagi 10% viðstaddra. Síðan var farið niður í bæ og ég verð nú bara að segja að þetta var eins og að vera staddur í sardínudós! Undirrituð hnaut um þrep og féll við, og fékk smá kúlu á höfuðið. Daginn eftir leit ég á textavarpið og þar sá ég að "Lögreglan kvað þetta hafa verið sannkallaða ómenningarnótt. Örtröð hafi myndast á götum bæjarins og
fólk hafi dottið og slasað sig." Þannig að ég er auðsjáanlega lágmenningin holdi klædd!
posted by Hildur at 8:56 AM