Allt í gangi
Já það vantar ekki "happeníng" þessa dagana. Systir mín er að
stúdentast í dag, hrópum húrra fyrir því, og nokkrar vinkonur mínar
eru að klára hönnunarbraut í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Ein þeirra,
hún Sólborg, býður til veislu í tilefni dagsins á morgun. Þegar maður
mætir í útskriftarveislu vill maður koma með pakka. Ég gaf Kamillu
systur forláta bol og það var ekkert mál. Hún er álíka mikill tísku-
óviti og ég. En hvað gefur maður manneskju sem veit allt um hönnun
og er betur að sér í tísku en ég? Mig langar að gefa Sólborgu fallegan
hlut, en þeir hlutir sem mér finnast fallegir eru kannski ekkert
fallegir í raun. Hvað þá
inn! Hvað ef ég gef
henni eitthvað sem er hannað af óþekktum hönnuði? Eða eitthvað
sem er kannski svooo '98?
Það er kannski ekki ósvipað því ef ég væri að klára stjórnmálafræðina
núna og hún myndi gefa mér stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins í því
tilefni.
Þetta er erfitt.
posted by Hildur at 9:04 PM
Ég verð utandyra í sumar!
Já ég rifja upp gömul kynni af Vinnuskólanum og leiðbeini unglingum af mikilli
ákveðni, ráðavendni og fádæma dugnaði (segjum allavegana svo). Ég hef hingað
til verið dugleg við að afþakka störf þetta vorið í von um að betra byðist en
ég held að það sé ekkert sniðugt á þessum síðustu og verstu tímum. Það gefur
lífinu líka ákveðið gildi að standa gegnblautur í rigningu, úfinn, drulluskítugur
og kvefaður að reyta arfa. Það er kannski íþyngjandi ef maður er unglingur en
um leið og maður er kominn með vald yfir öðrum þá er maður í góðum díl.
Sjáumst í slættinum.
posted by Hildur at 1:30 PM
Hérna beint fyrir framan mig í tölvustofunni í Lögbergi situr ung og lagleg stúlka,
dökk yfirlitum eins og prinsessur í ævintýrum, með slæðu yfir hausnum og bundið
við háls. Svo hlustar hún á vasadiskó í gegnum slæðuna. Mér finnst fínt að útlendingar,
hvaðan sem þeir koma, flytji til landsins og auðgi okkar annars rýru menningu og
flytji inn framandi strauma. Að öðrum kosti myndi ég sjálfssagt hringja strax í
þjóðarsálina og jesúsa mig. Annað eins hefur maður sannarlega heyrt.
En varðandi ritgerð þá sem ég er að hamast við að semja; Getiði svarað mér í sem fæstum
orðum: "Eru völd og áhrif opinberra starfsmanna lýðræðinu hættuleg?"
Nú spyr ég bara sem leikmaður?
posted by Hildur at 3:59 PM
Þá er það skjalfest
Já stúlkan er víst orðin fullra 24 ára í dag. Aldrei slíku vant er
ekki gott veður á afmælinu mínu. Ég vona að það boði ekki vont. Reyndar
hélt ég upp á afmælið mitt í fyrra í roki og rigningu en þá var ég
líka í Spanjólalandi, og það var gott veður hér. Nóg um það.
Júróveislan
Án þess að ég sé neinn yfirlýstur kommúnisti þá finnst mér að vissu
leyti miður að Sovétríkin séu liðin undir lok. Hér áður fyrr gátum við
Vesturevrópulöndin troðið írskum Enya ballöðum og sænskum Abba kópíum
upp á toppinn í júró. En það er liðin tíð. Nú er einhver grálúsugur
Balkanlýður að senda okkur langt nef og hrinda okkur hinum niður
stigatöfluna. Það væri réttara ef allir heimsins austantjaldsmenn myndu
halda sér réttu megin við járntjaldið svo að við gætum notið sextánda
sætisins pollróleg og í friði.
Nei ég var að grínast!!
Langsamlega bestu lögin þetta árið komu frá Úkraínu, Makedóníu,
Serbíu-Svartfjallalandi, Tyrklandi og Spáni. Ég er sátt við
niðurstöðuna fyrir utan að ég hefði auðvitað viljað sjá Jónsa í
hærra sæti. En lagið var dæmt til ósigurs miðað við að það kom beint á
eftir gríska laginu (sem konur og hommar hafa keppst um að kjósa vegna
líkamsfegurðar söngvarans) og bara hvað mörg önnur lög voru afbragðs
góð. Ég vona að þið haldið ekki að ég sé í alvöru með fordóma í garð
Austurevrópufólks, því að fordómalausari manneskju er erfitt að finna.
(tja ok ég hef litla fordóma gagnvart þjóðernum en þó nokkuð í
garð listaspíra og sveitafólks... sem er önnur saga).
Ómega
Söfnunin gengur bara vel og bráðum eru þeir komnir með þennan frábæra
búnað sem þeir eru að safna fyrir. Enda virðist vel mega græða á sögum
geðfatlaðs fólks og fyrrum dópista. *dæs*
En jæja, best að fara að blása á kerti, opna pakka og taka við
heillaóskum. Veriði blessuð!
posted by Hildur at 1:49 PM