Ég veit ekki alveg hvort ég eigi að fara að skipta um stíl eða hvað. Ég er
auðvitað síðbúin gelgja og veit ekki hvort ég muni nokkurn tíman vaxa upp
úr því. Allavegana veit systir mín (sú hin sama og er uppáhald hjá Árna Indriða)
ekki betur en að ég sé píkupoppari af dæmigerðustu gerð. Ekki svo að skilja
að ég telji mig yfir það hafna en... mér finnst ég bara ekkert vera það frekar
en að vera "goth-ari" eða listaspíra.
En ætli ég sé eins í augum allra annarra eins og hennar, meinstrím poppgelgja
með áhuga á tísku, förðun og sykursætri froðutónlist? Allavegana var hún áðan,
Starsailor aðdáandinn mikli, að punta sig fyrir framan spegil og taka oftar en
einu sinni fram að hún væri sko að fara á "þú veist, Starsailor tónleika, skilurðu?"
Ég gat ekki orða bundist. "Só?" spurði ég hana með vanþóknunarsvip. "Oh þú fattar
þetta ekki, þú fattar ekki Starsailor eins og ég. Við erum að tala um það að
þetta er eins og ef þú værir að fara á tónleika með Beyoncie, skilurðu?!"
posted by Hildur at 8:26 PM
Það lítur út fyrir að ég hafi snert nokkrar viðkvæmar taugar með síðustu færslu minni.
Ég veit ekki hvernig ég get klórað yfir skítinn... Tja, það er allavegana gott að
fólki skuli ekki vera sama um þankagang minn hér á blogger. Fólki virtist umhugað um að
neita algjörlega sinni hlutdeild og einkennum í sambandaveikinni. Annars er nú ágætt að
búa til svona ríg á milli einhleypra og tvíhleypra. Það er þó skárra en kynþáttarígur
eða fátækra-ríkrarígur. En vonandi tekst mér að stofna til sem mestra rifrilda og
sem mests fúllyndis. Það er nefnilega merkilegt að vera góður; en það er langtum betra
að vera merkilegur. Og hana nú.
Annars svara ég spurningu Þóreyjar játandi. Það er ALLT erfitt. Lífið er ljúfsár leikur.
Ég þurfti til dæmis að dúsa í 8 tíma í dag í Iðnskólanum í Reykjavík, í molluhita og
loftleysi. Það var ekkert smá erfitt að halda sér vakandi, fyrir utan hvað maður varð
pungsveittur og viðbjóðslegur. Svo er maður að fara að vera geðveikt hress með unglingum
í allt sumar!
Svo var ég líka að fá síðustu einkunnina mína í gær (alltaf ég að tala um einkunnir.
Stuð). Og ég var svo nálægt því að dúxa í Frjálshyggju 101 (aka Stjórnmálaheimspeki)
að ég varð bara fúl út í þá fjóra einstaklinga sem lúðuðust til þess að fá hærri
einkunnir en ég. Ég get ekki varist tilhugsuninni um það að ef ég hefði skrifað aðeins
gáfulegri svör hefði ég hugsanlega dúxað. Þá hefði verið skárra að rétt ná með 5.
Mikið vorkenni ég semidúxum og öfunda dúxa!
posted by Hildur at 7:17 PM
Alveg er ég komin með nóg af harðgiftu fólki. Ekki af því að það er harðgift, heldur
af því að upp til hópa virðist þetta fólk halda að þeirra lífsmáti sé sá eini rétti og
við einhleypu aumingjarnir hljótum að öfunda þau hræðilega, eða að við séum bara í
svona hálfgerðu "millibilsástandi" milli þess að vera að taka út lágmarks andlegan
þroska og að vera komin í fast samband. Maður hefði ætlað í nútíma þjóðfélagi ætti
fólk að vera víðsýnt og umburðarlynt, sem það er síðan ekki, sérstaklega ekki í garð
manneskja sem eru eldri en 20 ára og eiga engan maka. Það var rosa sniðugt hjá höfundum
Sex and the City að búa til þætti um nokkrar einhleypar konur sem nytu lífsins SAMT
glaðar og kátar. En við vitum hvernig þeir þættir enduðu; Þær allar í lukkunnar velstandi
í föstum samböndum, og harðgifta fólkið styrktist í trú sinni á því að þau væru
lukkunnar pamfílar en við hin ekki nema hálfir menn eða hálfar konur.
Ég tala bara fyrir sjálfa mig þegar ég segi að ég er meira en hálf manneskja. Ég er
ekki þjótandi um allan bæ í örvæntingarfullri leit að mínum betri helmingi, þannig að
ég líti út fyrir að vera með njálg í rassinum. Reyndar finnst mér bara fínt að vera ekki
komin með fólk-í-sambúð-veiki, en einkenni þeirrar veiki eru: buxnadragtir, strípur,
létt 96,7, Kanarí á sumrin, geysilegur áhugi á nýjustu sófasettum bæjarins, slúður um
"tengdó" og rifrildi yfir hvort klósettsetan á að vera af eða á.
Eitt helsta einkenni fólk-í-sambúð-veikinnar er þó hið fyrrnefnda, um að þurfa endalaust
að vorkenna einhleypingum og halda að þeir séu bara í millibilsástandi. Ég veit ekki
hversu oft ég hef fengið athugasemdir eins og:
"Þú verður nú að fara að ná þér í einhvern almennilegan karlmann, ha!"
"Ertu ekki komin með einhvern háskólamenntaðan í sigtið?"
"Þú ert nú svo sæt og klár, þú finnur einhvern... Já já!"
"Heyrðu hann Gunni minn á fullt af myndarlegum vinum sem eru á lausu, viltu koma
í partý?"
Og þar fram eftir götunum.
Já það er sannarlega erfitt að lifa í þessum heimi sambanda-æðis í nútímanum.
posted by Hildur at 1:32 PM