Ég er loksins komin með vinnu. Ég er búin að vera að leita að einhverju áhugaverðu í heilan mánuð held ég bara en lítið hefur boðist. En ég var svo heppin að fá að fara í "hópviðtal" síðastliðinn þriðjudag. Það var svona atvinnuviðtal þar sem ég held við höfum verið 10 manns saman að blaðra um okkur sjálf og svo framvegis. Skemmtileg tilbreyting svosem. En fólkið sem stýrði viðtalinu bauð mér svo vinnu í
Dorothy Perkins sem er tískubúð sem opnar í Smáralind á fimmtudag. Alveg sé ég ekki sjálfa mig fyrir mér að vinna í fatabúð. Það kom mér reyndar svolítið á óvart að konan sem ég talaði við í dag sagði að hún vildi gjarnan fá mig í vinnu en að hún hefði dálitlar áhyggjur af því að ég
fengi bara leið á þessu. Mig dauðlangaði að spyrja hana hvað hún meinti með því. Mig grunar að hún hafi lesið úr svip mínum og háttalagi einhvern lífsleiða. Er það kannski eitthvað sem allir kannast við nema ég sjálf?
Ég held ég dáist mest af þeim háskólastúdentum sem lifa spart af því að þeir nenna ekki að vinna. Ég nefnilega vinn af því að ég nenni ómögulega að lifa spart.
PS. Ég vaknaði upp við vondan draum í gær. Sem var síðan ekki vondur draumur heldur ískaldur veruleiki. Ég nefnilega komst að því í tíma í "Rannsóknum í stjórnmálafræði" að ég þarf aftur að læra
diffrun. Þegar ég tók stúdentspróf í stærðfræði hélt ég að ég gæti gleymt öllum martröðum á borð við diffrun og tegrun. Og gleymdi þeim. En ég þarf að rifja það upp núna. Já þið megið sannarlega vorkenna mér!
posted by Hildur at 1:49 PM
Hárgreiðslufólk er alltaf svo ánægt með handbragð sitt. Af hverju ætli það sé? Ég er eiginlega aldrei ánægð með það sem er gert við hárið á mér, en ég þori aldrei að láta í ljós óánægju mína þegar fólk er glatt og ánægt. Frekar deili ég gleðinni með þeim.
Á djamminu um helgina var ég góðmennskan uppmáluð og réð blankan útlending í vinnu til mín við að þrífa bílinn minn með tusku sem ég fékk í láni á bar. Ég á reyndar ekki bíl en ég lét hann fá þúst kall fyrir að þrífa bíl sem ég rambaði á á götum úti og þótti nógu flottur til þess að ég gæti hugsað mér að eiga hann.
posted by Hildur at 8:41 PM