Ég verð nú að segja að hver sá sem fann upp á því að senda kennara í stjórnmálafræði á kennslutækninámskeið fellur ekki í kramið hjá mér. Allt í einu eru þeir farnir að ætlast til þess að nemendur taki virkan þátt í námskeiðunum, mæti undirbúnir, og eyði öllum sínum tíma í að skrifa ritgerðir, lesa og gera verkefni. Ég segi nú bara; vita þeir ekki að við þurfum að vinna, fara í ræktina og djamma allar helgar? Maður er bara í fjötrum. Þetta var ekki svona í fyrra! *dæs* (rita ég hér hafandi aldrei séð neinn dæsa annars staðar en á prenti).
Í Jay Leno í gær var hinn stórskemmtilegi dagskrárliður "Point, what's your point?" (já ég gleymdi líka að taka fram að sjónvarpsgláp er mikilvæg tómstundaiðja). Mér fannst eitthvað ljótt við að gera svona mikið grín að einfeldningum, en Jay Leno gerir einmitt mikið af því. Samt var þetta pínu fyndið. Fyrir þá sem ekki sáu þetta þá var þetta einhvern vegin á þá leið:
Strákur og stelpa á aldur við mig taka þátt í rökræðum um málefni líðandi stundar.
Jay Leno: "Hvað er hægt að gera til að stöðva innflutning ólöglegra innflytjenda?"
Strákurinn: "Öh... ég segi nú fyrir mína parta, ég bý í S-Texas og hef séð marga svoleiðis, líka nokkra svona Al-kaída."
Jay Leno: "Hverjir eru Al-kaída?"
Strákurinn: "Það er fólk eins og Cat Stevens sem er með læti í flugvélum."
Stelpan: "Já Cat Stevens er Al-kaída."
JL: "Hverrar trúar er þá Cat Stevens?"
Strákurinn: "Hann er Al-kaída...Nei hann er Kórani"
Stelpan: "Nei hann er Al-kaída, Kóraninn er biblía gyðinga."
JL:"Nei Kóraninn er biblía múslima"
Strákurinn: "Já Cat Stevens er þá múslimi."
Stelpan: "Þetta er nú allt það sama."
Strákurinn: "Yeah man, all the same!"
Kannski eru þau eitthvað skyld George Bush!
posted by Hildur at 1:30 PM
Rétt upp hönd sem hefur prófað Singstar?
Það er snilld. Ég fór í afmæli í gær hjá Kötlu vinkonu minni, og þetta var svona gellupartý, held við höfum verið svona 12 slíkar og allar að flippa í Singstar. Ég mæli sérstaklega með þessu fyrir fólk eins og mig sem myndi aldrei meika það í Ídolinu. Svo skunduðum við niður í bæ og ekki er ég til frásagnar um það í meginatriðum. Nema að eftirfarandi samtal átti ég við góðglaðan norskan mann:
Góðglaði Norsarinn: "Du er en veldig pen islensk jente. Vil du spise med mig på en restaurang i morgen? Kanske en kinesisk?
Ég (líka góðglöð): "Men jeg liker ikke å spise kinesisk mat."
GN: "Neivel du vil kanske heller sauehovet?"
É: "Ja! Og brennivín!"
GN: "Ja. Det er herligt."
Svo kenndi ég honum íslenska glímu og tapaði reyndar fyrir honum enda var hann giska 40 kílóum þyngri en ég. Svo hvatti ég hann til að skella sér á brennivínsstaup á barnum og kaupa síðan Lýsi við fyrsta tækifæri. Svona þarf ég alltaf að gera útlendinga að Íslendingum. Það er leitun að þjóðræknari ungmennum en mér.
posted by Hildur at 8:45 PM