Ekkert pólitískt röfl í dag!
Þegar ég var lítil fannst mér ógeðslega töff að vera með svona heyrnartól með áföstum míkrófón. Það var eitthvað svo virðulegt. Bæði af því að Madonna var alltaf með svoleiðis á tónleikum og svo var líka alltaf eitthvað svo fínufrúarlegt og valdamikið að sjá fólk með svoleiðis fyrir framan tölvuskjá. Já og þyrluflugmenn voru líka alltaf með svoleiðis í myndum og mig hefur alltaf langað að kunna að fljúga þyrlu. Og það er ekki að spyrja að því. Ég réð mig hjá Símanum í svoleiðis starf árið 2000 - 2001. Svo var ég ritari á Landspítala Hringbraut sumarið 2002, og í Fossvogi 2003. Nú veturinn eftir það vann ég á gestamóttöku á Centerhótels, og svo núna er ég þjónustufulltrúi hjá Stöð 2. Og af hverju er ég að þylja þetta allt upp? Jú ekki einungis hefur gamli draumurinn, um að fá að skarta svona fíneríi, ræst, heldur þá er mig farið að gruna að þetta sé það sem ég muni alltaf og ætíð starfa við. Hvernig er hægt að losna úr hjólförunum?
(ekki það að það sé ekki fínt uppi á Stöð 2, ég fíla mig ágætlega, nú og svo er maður jú búin að sjá slatta af selebbum. - Maður er jú hugtekinn af þeim)
Í gær var ég á Lækjartorgi að bíða eftir strætó og gaur á aldur við mig vatt sér upp að mér og spurði mig hvort ég gæti lánað sér pening í strætó. Mér datt strax í hug að þetta væri falin myndavél. Það var eitthvað skrýtið við að edrú manneskja á mínum aldri skyldi gera þetta, og spyrja bara mig en ekkert af hinu fólkinu. Eins og lög gera ráð fyrir ætlaði ég að vera ógeðslega töff, ólíkt flestum sem lenda í falinni myndavél. En það tókst ekki betur en svo að ég svaraði si svona: "Ööö... hérna... eða sko nei... addna... er ekki með klink... eða"
Þetta var pottþétt falin myndavél!
posted by Hildur at 4:28 PM
Hildur goes political
Eh já. Bush var kjörinn aftur. Kom mér svosem ekkert á óvart
. Ég passaði samt að vera merkt Demókrötum á kosningavöku Bandaríska sendiráðsins, þar sem margt var um fjörið og ameríska bjórinn (sem líkt og kynlíf um borð í árabát er "fucking close to water". Það er þó betra heldur en bjór með hlandbragði líkt og Egils Gull). Ameríkanar eru höfðinglegir heim að sækja. En ég, frjálslynda jafnaðarmanneskjan, tók upp á því að gerast ötull stuðningsmaður Demókrata, þó svo að ég hélt að ég myndi aldrei til dæmis merkja mig hérlendum Sjálfstæðisflokki. Það stendur svosem ekki til, en ég gerði mér semsagt grein fyrir því að það er þrátt fyrir allt munur á kúk og skít. Ef við værum svo óheppin hér á landi að hafa tvo raunhæfa valkosti í pólitíkinni, annars vegar íhaldið og hins vegar öfgahægrisinnaða, öfgakristna, byssuóða, hommahatandi rednecka, nú þá er ekki að spyrja að því hvernig atkvæðum mínum yrði varið. (Ásdís og Guðni, ég hef ekkert á móti kristnu fólki, þvert á móti finnst mér að megininntak kristilegs siðferðis sé nágungakærleikur og umburðarlyndi, líkt og td í íslam. Bara pirrandi þegar fólk notar trúarbrögð sem yfirvarp fyrir eigin þröngsýni og mannfyrirlitningu). En hugmyndafræðilegur ágreiningur minn við Demókrata gefur ekki tilefni til þess að ég merki mig þeim sérstaklega. Mig grunar að ef ég tæki nú upp á því að rökræða pólitík við dæmigerðan Demókrata yrði stutt í að sá/sú hinn sami yrði fagurrauður í framan, steytti hnefanum í loftið, berði á borðið og kallaði mig helvítis kommúnista, líkt og róttækir Sjálfstæðismenn hér á landi hafa stundum gert. En það er allt í lagi. Mér finnst það svo krúttlegt og hægrimenn eru svo sætir þegar þeir reiðast.
PS. ég lofa að röfla ekki um pólitík næst. Næst ætla ég að skrifa um djamm, skandala og slúður af fræga fólkinu.
posted by Hildur at 1:55 PM
Ég var á ættarmóti áðan. Það var svo fyndið. Það er svo gaman að taka í spaðann á fólki sem er alveg "Góðan dag. Ég heiti Jóna Jóhannesdóttir, Sigurðssonar, bróður Halldóru og Stefáns" ... góðan daginn, ég þekki ekki neitt af þessu fólki en það er örugglega mjög sólid og gott fólk fyrst það er skylt manni. Eftir að Íslendingabókin kom til sögunnar þá þarf maður ekkert að leggja á minnið hvað forfeður manns hétu, hvað þá systkini þeirra og þeirra slekt. Jájá. En mér finnast ættarmót sniðug fyrirbæri af því að þá geta meðalljón eins og ég komist að því hvort þau eigi einhver selebb fyrir frændsystkini. En því miður var ekki eitt einasta selebb í þessarri ætt. Það er glatað. Verður ekki alltaf að vera eitt slíkt á hverju ættarmóti? Þó ekki væri nema ein Nylon stúlka, ja eða kannski íþróttaálfurinn eða einhver úr ídolinu. Annars held ég að ég ætti ekki að kvarta; síðast þegar ég fór á ættarmót, fyrir nokkrum árum, var enginn annar en að-horfa-á-myndband-er-góð-skemmtun-maðurinn! Það gladdi mitt litla hjarta að vita að ég væri skyld honum. Það er líka áreiðanlega gott að vera selebb og geta selebbast.
posted by Hildur at 5:13 PM