Í gær gerðist nokkuð merkilegt. Ég var í strætó -eins leiðinlegt og það er að jafnaði- og hópur af góðglöðu þroskaheftu fólki kom inn askvaðandi. Ein konan í hópnum settist í sætið fyrir framan mig, og var svo starsýnt á mig. Hún varð ósköp hissa að sjá um stund en kallaði svo upp yfir sig: "Þú ert með andlitið eins og á dúkku!" og svo við hina í hópnum "Krakkar sjáið þið, hún er með andlitið eins og á dúkku!" Kátínan varð mikil í hópnum og fólk hló dátt, tók bakföll og skellti sér á lær. Það er gott að geta glaðst yfir litlu. Það hefur enginn sagt þetta við mig áður og aldrei hefur mér dottið þetta í hug sjálfri, en þegar heim var komið tók ég mér stöðu fyrir framan spegilinn og það rann upp fyrir mér ljós; Kálhausadúkkur! Þær eru með spékoppa og broshrukkur eins og ég! Einkennilegt að enginn skyldi hafa haft orð á þessari samlíkingu áður.
posted by Hildur at 1:14 PM
Í tilefni þess að Ásdís var að hrósa mér fyrir góða bloggástundun sé ég mig knúna til þess að rita eitthvað fallegt. En ég hef ekkert til að rita um. Mig langar fullt til að röfla yfir stjórnmálum en ég er eiginlega ekki í stuði. Ég er búin að fatta að þau eru ekkert spennandi og það er hver froðusnakkurinn öðrum líkur. Kannski er ég bara í svona "niðurtúr" núna eins og fíkniefnaneytendurnir, af því að ég þarf að einbeita mér núna að svo mörgum leiðinlegum hlutum í stjórnmálafræði...
Eða kannski er þetta af því að próflestur og stress fyrir jólapróf í stjórnmálafræði þýða það eitt, að ég get svotil engum tíma varið í brennivín og karlmenn. Eftir jól verð ég eflaust komin á fullt að bölsótast yfir kolkrabbanum sem er að sliga þetta þjóðfélag.
posted by Hildur at 1:03 PM
Ég er hætt að væla yfir eigin áhyggjum og stressi. Satt best að segja er til ein ágæt leið til þess að losna við áhyggjur af tilteknum vandamálum, og það er að búa til ný vandamál. Og við kommarnir kunnum líka að drekka til að gleyma.
posted by Hildur at 2:33 PM