Ég var að ákveða að ég skyldi taka mig taki og reiða fram neðanmálsvísur og dónasögur eins og ég gef mig út fyrir að kunna á blogginu en segi samt aldrei. Nema hvað. Ég var komin með þessa líka klámfengnu dónafærslu að Belsebúb sjálfur hefði jesúsað sig við að lesa hana en svo fór ég að hugsa; svona get ég ekki boðið lesendum mínum upp á, þeir eiga betra skilið. Þannig að ég strokaði færsluna út og skrifaði þetta í staðinn.
posted by Hildur at 11:33 AM
Það eru víst ekki nema hálf sannindi að fegurð sé afstætt hugtak. Það er víst búið að sanna það vísindalega hvaða fólk er fallegt og hvað ekki, og skyldi engan undra. Ástæðan fyrir því að okkur þykir Brad Pitt vera fallegur er ekki sú að við höfum öll eins smekk, heldur einfaldlega af því að hann er það. Fólk parast líka oftast saman tiltölulega rökrétt eftir útliti. Fallega fólkið nær í fallegt fólk, ljótt fólk nær í ljótt fólk, og svo eru alls konar varíasjónir þarna á milli. Það heyrir til undantekninga að fallegt fólk líti við ljótu fólki, ég hef allavegana ekki oft séð slíkt. En það er alveg merkilegt að á sama tíma er bara til allt of mikið af drulluskemmtilegu fólki sem virðist sækja í sér leiðinlegri maka! Kannski er skilgreining á "skemmtilegt" misjafnara á milli fólks, en mig grunar að flestum finnist þumbaralegt, húmorslaust og fýlugjarnt fólk venjulega leiðinlegt. En ég þekki einmitt slatta af stelpum sem eru skemmtilegar, flippaðar og hressar og eiga þessa líka þvílíkt óspennandi kærasta. Sumir eru alltaf með skeifu, alltaf nöldrandi og finnst allt glatað. Aðrir eru svona virkilegir gúmmítöffarar; ógeðslega hrokafullir og líta niður á gjörsamlega alla án þess að það sé nokkur innistæða fyrir því. Svo þekki ég líka slatta af strákum sem eru fyndnir, uppátektarsamir og með eindæmum skapgóðir, sem eiga svo hrútleiðinlegar kærustur að það hálfa væri passlegt. Þá eru gjarnan sumar alveg gjörsamlega litlausir karakterar, hafa frá engu skemmtilegu að segja og hafa bara óþægilega nærveru. Og aðrar eru svona ýktar puntudúkkur alltaf með þjáningarsvip út af engu og væla út af öllu.
Hvað veldur eiginlega? Hvernig í ósköpunum nennir skemmtilegt fólk að púkka upp á svona leiðindakaraktera? Er það kannski meira afstætt hvað er skemmtileg og hvað ekki? Þá þætti mér samt rökrétt að þeir sem væru leiðinlegir þættu einmitt aðrir slíkir vera spennandi og öfugt. Ég meina, það er til eitt sem heitir að vega upp hvort annað, og mér finnst ekkert óeðlilegt að fólk með mismunandi skoðanir, eða er misrólegt eða skynsamt skuli para sig saman, en þetta skil ég ekki. Ef ég væri í mannfræði myndi ég rannsaka þetta. Nei... þetta er frekar viðfangsefni sálfræðinnar!
posted by Hildur at 2:12 PM