Flestir verða all-hvumsa þegar þeir heyra áramótaheitið mitt fyrir árið 2005, en það er á þá leið að ég ætla að byrja að reykja á árinu. Allir eru með svo heilsusamleg áramótaheit, þannig að þetta er svona andsvar við því. Og satt best að segja þá vantar mig nýjan leiðinlegan ávana sem ég get gripið til þegar ég er stressuð eða þarf að ná mér niður. Fyrir utan sykurfíknina sem háir mér (ég þarf alltaf að skella mér á kók í bauk til að ná mér niður), þá er ég byrjuð að naga neglurnar í tíma og ótíma eftir margra ára hlé. Ég er líka alltaf að spila "snake" í símanum mínum (I know- sooo last season). Svo er ég alltaf að braka í liðamótum. Ég læt mér ekki nægja fingur- og hálsliði eins og flestir; -ég þarf líka að þjösnast á úlnlið og olnboga (sem yfirleitt brakar ekki í) þar til undan svíður. Svo þegar aðstæður bjóða upp á það skelli ég mér á Ölstofuna á Jägermeister kenderí.
Þannig að það er von að mig vanti nýja fíkn og áráttu til að losna við þær sem fyrir eru. Hví skyldi ég þurfa orku frá sykri þegar ég get skellt mér á sígó? Og hví skyldi ég grípa í Jägermeister sjúss þegar ég get skellt mér á gott krakk?
Svo finnst mér ógeðslega töff að reykja. Fyrir utan hvað það hefur mikið félagslegt gildi (ég held að flestir eignist sína bestu vini og jafnvel maka í reykpásum) þá er fólk alltaf svo töff á svipinn þegar það húkir úti með sígarettu í kjaftinum, svona eins og því sé alveg sama um allt og alla. Já það verður reglulega gaman að byrja að reykja.
posted by Hildur at 1:41 PM