Venjulega finnst mér fínt í vinnunni, af því að mér þykja krakkar skemmtilegir og í góða veðrinu hefur aðal verkefnið verið að hafa auga með þeim úti fyrir. Auk þess kunna þau, líkt og ég, almennt sérstaklega vel að meta fúla fimmaurabrandara, sama hversu oft þeir eru sagðir. En í dag rak mig í rogastans þegar ég mætti á svæðið; það var tekið á móti mér með þeim skilaboðum að ég ætti að fara með hópinn minn í matreiðslu og kenna þeim sjálf að elda! Ég kann ekki að elda sjálf nema það allra einfaldasta, og geri það yfirleitt ekki ógrátandi. En í dag þurfti ég semsagt að reyna að kenna sjö og átta ára gömlum börnum með tíu þumalfingur hver, að gera hluti sem ég þoli ekki að gera, á milli þess sem ég hlustaði á öskur og stöðvaði slagsmál. Ésús Pjetur! Í stuttu máli sagt lifði ég þetta af, og niðurstaðan af því er óhjákvæmilega sú að ég yrði góð í íslensku friðargæslunni. Fyrst ég hafði
þetta af!
Góða helgi
posted by Hildur at 7:13 PM
Mig langar að hafa þoku! Mér finnst svindl að hún sé farin. Þegar ég var lítil fagnaði ég alltaf þokunni og hljóp út til að reyna að villast. Reyndar tókst það ekki nógu vel þá og myndi takast enn verr núna... en mér finnst þokan sjarmerandi og skemmtileg. Það er svo gaman að vera inni í skýi.
Vissuð þið annars að ef maður heldur prumpi inni í sér of lengi, þá breytist það í rop?
posted by Hildur at 1:06 PM
Ég er að vinna með börnum þessa dagana, fékk mér vinnu í frístundaheimili á vegum ÍTR. Vitanlega ekki best borgaða starf í heiminum en börn eru svo fyndin og skemmtileg. Í síðustu viku var ég til dæmis að áminna einn drenginn fyrir óþekkt og sagði við hann: "Vertu ekki með þessi hortugheit!" og hann svaraði að bragði: "Heyrðu nú mig, þú ert sko bara sjálf hortugheit og meira að segja líka hortugköld!" Svo sagði ein sjö ára stúlka að ég væri sætasta konan sem hefði nokkurn tíman passað hana og hún væri aldeilis búin að láta stóra bróður sinn vita af því, þar sem hann ætti nú enga konu. Já þau eru fyndið fólk, þessir krakkar.
Annars var ég róleg þessa helgina og drakk ekkert sterkara en malt. Ergo= engar nýjar slúðursögur, engir nýir óvinir og blessunarlega engir nýir vinir heldur...
posted by Hildur at 6:53 PM