Þar sem ég þykist ætla að útskrifast í vor hlýt ég að verða að stefna á eitthvað dúndur í framhaldi af því. Ég get ekki farið að vinna einhvers staðar við að svara í símann og brosa framan í einhverja andfúla kúnna. Eða ég get að minnsta kosti ekki stefnt að því. Nei markið er sett hærra, annað hvort beint í masterinn (ef ég kemst inn!), einhverja töff vinnu nú eða bara útlönd.
Þetta með töff vinnuna er ég reyndar svolítið efins um. Ég fór í gær í skriflegt hæfnipróf fyrir fréttamannastarfið á Gufunni og það má segja að ég hafi verið flengd, hirt og sett á gapastokkinn. Þvílíka niðurlægingin, þó var þetta próf í málfari! Og ég á enn eftir fréttalestrarhlutann sem verður sjálfssagt enn hræðilegri fyrir mig. Nei, ég held ég ætti frekar að fara að steikja sveitta hamborgara á þar til gerðum búllum.
Hvað með að fara til útlanda? Það hljómar óneitanlega töff. Það er móðins að vera heimsborgari. En þar stöndum við þó frammi fyrir vandamáli. Ef ég fer til útlanda, til dæmis bara New York, þá hætti ég um leið að vera andans bloggari, og fer að setja inn hráar dagbókarfærslur. Alveg eins og ég gerði í Madríd, og allir heimsborgarar eru eiginlega tilneyddir til að gera. Það er svo skrítið.
Af þvíað:
Það er ekkert merkilegt að taka strætó frá Kleppsvegi suður í Hafnarfjörð, fá sér teikaway á Nings, skella sér fyrst á Hvebbann og svo á Nösu, eða þekkja einhvern sem heitir Halldór. Enda skrifa fæstir um svoleiðis hversdagslega hluti.
Það er hins vegar ekkert frekar merkilegt að taka neðanjarðarlest frá Manhattan til Brooklyn, borða á kínverskum veitingastað í "kínahverfinu" í New York, fara á hommadiskótek rétt hjá Times Square, eða þekkja einhvern sem heitir Stu.
Samt blogga allir heimsborgarar um svona hluti í ítrustu smáatriðum!!
posted by Hildur at 12:09 PM