Alveg finnst mér þessi Ópru þáttur sorglegur. Ég er að vísu ekki búin að sjá hann en ég las viðtölin í DV. Það sem mér finnst fáránlegt er að fólk sé að hneykslast á því að það er ekki litið niður á einstæðar mæður á Íslandi (eins og það sé dyggð að draga fólk í dilka), og að það sé alltaf verið að tönglast á lauslæti íslenskra KVENNA. Síðast þegar ég vissi þurfti tvo til og það er alveg ömurlegt að fólk skuli telja sér stætt á að dæma konur eftir þeirra tilhögun í einkalífinu og líta á þær sem siðgæðisverði í almannaeign. Sérstaklega finnst mér bagalegt að sjá konur sjálfar taka þátt í slíku rugli. Ég segi við ykkur allar: Hættið að kalla kynsystur ykkar druslur, það er ekki til siðs að vera dómharður og með nefið ofan í hvers manns koppi. Með því að taka þátt í slíkum uppnefningum eruð þið líka að viðhalda normum karlaveldisins. Hafið það!
(ég ætla bráðum að skrifa grein um þetta...)
Annars verð ég að segja að mér finnst ræða Þórunnar Lár alveg einstaklega klisjukennd og bjánaleg. "Við Íslendingar erum þekktir fyrir ljóshærðu, hávöxnu og bláeygu konurnar..." -eins og einhver léleg flugleiðaauglýsing.
Halló, erum við virkilega ekki þekkt fyrir annað en háralit minnihluta annars kynsins? Leiðinlegt að svona múlattar eins og ég skulum flækjast fyrir og skemma þessa sýn leikkonunnar.
Annars verð ég að segja að ég hef ekki orðið vör við að íslenskar konur væru eitthvað fallegri eða ljótari en aðrar (kannski ekki dómbær á það heldur), en ég talað við fólk í útlöndum sem hefur verið snortið af Flugleiðaauglýsingunum og spyr mig út í þetta. Ég hef nú alltaf svör á reiðum höndum:
Útlendingur: "Já ertu frá Íslandi? Er það satt að íslenskar konur eru allar fallegar?"
Ég: "Neibb. Það er bara ég."
Ú: "Jaá þú meinar það... ég skil."
posted by Hildur at 1:13 PM
Bráðum verð ég orðin kvartaldargömul og það er enginn smá aldur. Það er aldurinn þar sem allir VERÐA að fara í pakkann, þú veist, raðhús, gifting, tvö börn, hundur og Kanarí á sumrin. En slíkt er ekki planað hjá mér í nánustu framtíð og ömmur mínar hafa verið að ræskja sig við mig af þeim sökum. Stundum slæst móðir mín í lið með þeim. Ég var farin að hlakka til að fara til Svíþjóðar í vor en eins og ég var búin að segja þá á ég ekki bót fyrir boruna á mér þannig að ég neyðist til að fá mér einhverja þrælavinnu hér á landi á í staðinn. Á meðan það stóð ennþá til að fara þá passaði mamma mjög vel að brýna reglulega fyrir mér að hún vildi ekki hafa að ég færi eitthvað að festa ráð mitt í nánustu framtíð. Hún hafði nefnilega þungar áhyggjur af því að ég myndi innan tíðar krækja í einn ljóshærðan víking, flagga blágula fánanum sem hann væri minn eigin, hrúga niður samnorrænum bastörðum, borða sænskar "köttbollar" í öll mál, spila íshokký og ekki koma til fóstjarðarinnar nema einstaka jól og páska. Og tala þá með sérkennilegum sönglanda og segja "takj" en ekki takk.
En hún þarf semsagt ekki að hafa áhyggjur af þessu lengur þannig að hún er aftur tekin að brýna fyrir mér gildi þess að "ganga út" eins og það sé takmark í sjálfu sér. Stundum minnir hún á það að ömmur mínar hafi einnig áhyggjur af mér. Hún áminnti mig um daginn og sagði: "þú manst að þú átt tvær ömmur sem eru að verða áttræðar og þú getur ekki haft samvisku í að láta þær kveðja þennan heim án þess að hafa séð þig í hvítum kjól með slör".
Þar hafði ég það.
Ég á annars afmæli eftir 15 daga, hvað ætlið þið að gefa mér í afmælisgjöf?
posted by Hildur at 2:16 PM