Ég verð nú bara að segja GOTT hjá Angelinu Jolie að setja þau skilyrði fyrir hlutverki í James Bond, að persónan fái að vera hörkutól en ekki einhver endemis ósjálfbjarga veimiltíta. Ég vona að handritshöfundum takist að skapa nógu ákveðna og hörkulega Bondstúlku fyrir hana Angelinu. Ef.... nei ÞEGAR ég fæ hlutverk Bondstúlku ætla ég líka að krefjast þess að hlutverkið verði krassandi. Af sömu ástæðu held ég mest upp á Helvítið hana Fríðu af öllum Laxnesspersónum sem ég hef kynnst.
posted by Hildur at 3:38 PM
Ég er alveg dauðuppgefin í dag, ekki eftir vinnu og rækt (það tvennt er að komast upp í vana), heldur af því að mér kom vart dúr auga í nótt fyrir dúndrandi verk í hjartanu. Ég sá líf mitt hraðspólast öll þau 25 og hálfa árið sem ég hef lifað og fór að hafa samviskubit yfir því að vera að gefa upp öndina eignalaus og með skuldir við bankana, sem fjölskyldan yrði að selja bílinn eða eitthvað til að fjármagna. Ýmsar hugsanir leituðu á huga minn og ég ímyndaði mér hvernig lífið væri án mín (óhugsandi fyrir sjálfa mig auðvitað, spurning bara hverju það myndi breyta fyrir aðra) en mitt í þessum hugsunum rak mig í rogastans af því að ég gerði mér grein fyrir því að verkurinn gat tæpast verið hjartverkur þar sem hann reyndist vera HÆGRA megin. Það er svona að þekkja ekki gjörla muninn á hægri og vinstri -það er fötlun sem gerir mér alls ókleyft að muna "hægriregluna" í umferðinni. En ég er ekki með hjartað hægra megin, enda væri ég þá kapítalisti.
Hins vegar held ég að fuglaflensa einkennist af verk hægra megin í brjóstholinu.
posted by Hildur at 9:18 PM
Þrátt fyrir alla mína sjálfumgleði, sjálfshól í hvívetna og yfirlæti þá neyðist ég á stundum til þess að horfast í augu við staðreyndir og viðurkenna fyrir sjálfri mér og öðrum: Ég ER víst misheppnað eintak af homo sapiens sapiens, eða homo economicus ef þið viljið.
Héðan í frá verður fátt að sjá hér nema fýlublogg.
posted by Hildur at 10:23 PM
Ég er allt í einu farin að spá í því hvar mörkin liggja á milli þess að geta talist ungur og gamall. Einhverjir vilja meina að maður sé ekki gamall fyrr en manni finnst maður vera það. En mér finnst ég vera gömul af því að ég er farin að standa mig að því að gleyma öllum fjandanum. Já minnið mitt er alltaf farið að líkjast gullfiskaminni og ég bíð bara eftir því að vakna einn daginn, líta í spegil og spyrja í forundram; Hvaða fíbbl er nú eiginlega þetta?
En það er svona. I may have Alzheimers -but at least I don't have Alzheimers!
posted by Hildur at 6:51 PM
Undirritaðri varð á að hrasa fremur illa fyrir utan húsið í nótt. Það er ekki frásögur færandi nema af því að nú er ég öll lurkum lamin, og meðal annars er ég með svona sár sem lítur út eins og einhver hafi stungið í mig í rassinn með gaffli. Ég skil ekki alveg hvernig mér tókst að detta á þann hátt, en hugsanlega var það ekki fallið sem lék mig svo grátt. Það er ágætis mælikvarði á ofurölvun ef hægt er að stinga mann í afturendann með gaffli og maður finnur ekki fyrir því. Löggan ætti kannski að taka upp á þessu, fara með gaffal út í umferðina, reka fólk á hol og ef viðbrögðin eru engin má úrskurða: "Of fullur til að keyra!"
posted by Hildur at 4:55 PM