Partý á Norðurstíg 3aÉg er blessunarlega bráðum að verða vesturbæingur aftur eftir tveggja mánaða dvöl í 105 í kjallaranum hjá gamla settinu. Það er kærkomið að komast aftur í lágmenninguna réttu megin við Rauðarárstíginn, og enn kærkomnara að verða aftur útaf fyrir sig í svona piparmeyjaríbúð. Skrítið hvað það hljómar ekkert eins og skemmtilegt pleis þótt piparsveinaíbúðir virðist alltaf vera vinsælar. En ég get líka alveg gert minn stað að partýpleisi. Ég hef það fyrir satt að ég mun hafa blikkseríur í gangi allan ársins hring, fullan kæli af Brízer, fótanuddtæki, allar Friends seríurnar á dvd og Damien Rice á fóninum. Nú og svo verður fínt að þurfa ekki að taka tillit til annarra nema að litlu marki þannig að í hvert sinn sem ég er búin að taka þvengina mína úr þvotti víla ég það ekki fyrir mér að hengja þá upp um allar trissur til þerris.
Verst er samt að nú er ég ekki lengur undir sama þaki og
þessi hérna stórvinur minn, en hann á einmitt afmæli í dag. 12 ára gamall kallgreyið, kominn af léttasta skeiði.
posted by Hildur at 5:04 PM
Mitt skítlega eðliÁ morgun verður einhver svona leynijólapakkaleikur í vinnunni þar sem allir leggja eina gjöf í púkkið og fá síðan einhverja úr safninu af handahófi. Það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég frétti þetta var að ég ætlaði að kaupa eitthvað ljótt, eitthvað svona einskisnýtt drasl sem engum tilgangi þjónaði, og hlakka yfir því þegar einhver vonsvikinn tekur gjöfina upp. Segi svona.
Annars er það fastur liður í hverjum desembermánuði hjá mér að fara í rannsóknarleiðangur þar sem ég þefa upp pakka fjölskyldumeðlima til mín og kemst að því með einum eða öðrum hætti hvað er í þeim. Ég get ekki sagt að ég verði oft hissa þegar ég ríf upp pakkana á aðfangadag því ég er yfirleitt búin að þreifa nógu mikið á þeim til að fatta hvað er í þeim. En þetta er allt gert eftir að ég er búin að þráspyrja viðkomandi hvað ég muni fá. Í gær spurði ég Kamillu systur í mesta sakleysi hvað hún ætlaði að gefa mér í jólagjöf og mér til nokkurrar furðu var hún fljót að gefa eftir. "Æ ég skal bara sýna þér það svo ég sleppi við að þú rústir herberginu mínu í leit að pakkanum þetta árið"
Og nú veit ég hvað ég fæ, en það er einhvern vegin minna fútt í því en venjulega.
Jólin eru hátíð efnishyggjunnar.
Góða helgi
posted by Hildur at 9:45 AM
HugleiðingÉg er meiri vetrarmanneskja en sumarmanneskja. Ég hef aldrei fundið fyrir skammdegisleiða en er ekki frá því að ég fyllist smá langdegisleiða á sumrin. Kannski er það fyrst og fremst af því að ég er nátthrafn en ekki morgunhani. En það eina sem ég kann fremur lítið að meta við veturna er jólin. Ekki út af "stressinu", þar sem mér finnst hóflegt stress alveg lífsnauðsynlegt, heldur út af einhverju sem ég veit ekki hvað er. Ég er strax farin að bíða eftir því að þessum jólum sé lokið og ég get tekið árið 2006 með trompi.
Ég held ég sé eitthvað skrítin. Nei eða kannski eru aðrir eitthvað skrítnir. Held ég sé jafnvel venjulegasta manneskja í heimi.
posted by Hildur at 5:41 PM