Ég lít svo á að nú sé öllu framboðsstússi lokið í mínum herbúðum, nú þegar ég er búin að kjósa í prófkjöri Samfó í Reykjavík. Ég mætti á svæðið áðan og biðröðin var alla leið til helvítis. Ég varð þokkalega pirruð. Fólkið hægra megin fyrir aftan mig tyggjósmjattaði eins og moðerfokkerar inn í eyrað á mér. Vinstra megin fyrir aftan mig var eitthvað hvítt rusl nöldrandi upphátt (ekki bara í huganum eins og ég) og beint fyrir framan mig voru organdi krakkagemlingar. Mér var skapi næst að ýta fólki í burtu með þeim orðum að "frökenin" væri mætt á svæðið og ryðjast. En ég stillti mig um það, enda jafn mikið nóboddí eins og hver annar. En það er nú einu sinni þannig að þegar við sossarnir förum í ríkisstjórn þá megum við víst venjast sovéskum biðröðum í hvívetna.
Annars er ég orðin móðir. Það er að segja styrktarmóðir. Ég er að styrkja einn krúttlegan 11 ára dreng frá Ekvador. Það má segja að ég sé ung móðir miðað við að barnið er að nálgast táningsaldurinn.
posted by Hildur at 6:04 PM
Þau ykkar sem eruð skráð í HÍ en kusuð mig EKKI í stúdentaráðskosningunum skuluð búast við því á hverri stundu að ég grípi um bæði eyrun á ykkur, skalli ykkur í gólfið, bretti svo upp á augnlokin á ykkur og æli í augun á ykkur. Svo flengi ég ykkur með blautri leðuról, lengi og fast.
Nei djók þið eruð yndisleg. Öll með tölu.
posted by Hildur at 4:18 PM
Jæja HÍ nemar Upp með kjörseðilinn. Ef þið eruð í vafa um hvað á að kjósa, þá er hér smá hint:

Forza Háskólalistinn!
posted by Hildur at 9:34 AM
Fjórar vinnur sem ég hef unnið um ævina: (ekki í réttri röð)
-einu sinni vann ég sem barnfóstra á kvikvmyndatökustað í Þýskalandi. Sólveig Arnars leikkona (ég alltaf að neimdroppa) var að leika í kvikmynd í Berlín og átti tveggja mánaða barn sem var á brjósti þannig að hún þurfti að taka það með sér á tökustað. Og ég var ráðin til að passa það, sem var mjög gaman, því fylgdu ferðalög milli hinna ýmsu borgarhluta og ég hafði það bara fínt með litla barninu ýmist að fylgjast með tökunum eða í göngutúr ef veðrið var gott eða inni í hjólhýsi ef veðrið var vont. Og fékk fín laun fyrir frá framleiðendunum. Klárlega skemmtilegasta vinna sem ég hef haft.
-sumarið 2004 var ég flokksstjóri í unglingavinnunni. Það var mun skemmtilegra og meira gefandi en ég hafði ímyndað mér fyrirfram.
-einn veturinn var ég í hálfu starfi með námi í gestamóttöku á Hótel Klöpp. Þá komst ég að þeirri niðurstöðu að fullir Skandínavar eru verkfæri djöfulsins.
-og jólin þegar ég var 17 ára vann ég í Mál og menningu meðal annars við að pakka bókum inn í gjafapappír. Ég með mína tíu þumalfingur.
Fjórar bækur sem ég gæti lesið aftur og aftur:-Spútnikkástin eftir Haruki Murakami
-Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness
-Stupid white men eftir Michael Moore
-Stefnuskrá Samfylkingarinnar. Hahaha djók
Fjórir staðir sem ég hef búið á:(ég ætla að vera ógeðslegur "villvera-stórborgari" og nefna útlensk heimililsföng)
-Øresundskollegiet, K-blokk, Kaupmannahöfn
-Storkwinkel 12, Halensee, Berlín
-Calle Ferrocarríl 7, Alcalá de Henares, Madríd
-Hohenstaufenstrasse 10, München
Fjórir sjónvarpsþættir sem ég fíla:-Law and order
-Ali G
-The office
-breskir gamanþættir almennt
Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:-Kulusuk í Grænlandi. Fór í dagsferð með Kamillu sumarið '96. Stysta millilandaflug sem ég hef farið í en jafnframt mesta menningarsjokk sem ég hef fengið
-Frankfurt. Bæði Am Main (í Hessen) og Am Oder (við pólsku landamærin). Bæði skítapleis.
-Marbella í desember 2002. Marbella er svona túristapleis og það var sannarlega súrt að vera þarna í desember í 16 stiga hita, ísköldu farfuglaheimili og eini útlendingahópurinn á staðnum. Samt þrælskemmtilegt.
-Prag, fór þangað síðasta haust. Fallegasta borg sem ég hef séð, en jafnframt háskaferð þar sem það munaði minnstu að tyrkneska vinkona mín væri tekin af landamæravörðum á leiðinni heim til Þýskalands þar sem verðina grunaði að hún væri að smygla sér inn í landið. Ég og sænska vinkona okkar gáfum þeim passanúmerin okkar og lofuðum að ef hún væri að ljúga (sem hún var auðvitað ekki) mættu þeir handtaka okkur líka. En við vorum ekki handteknar...
Fjórar síður sem ég skoða daglega:-blog.central.is/evakamilla Kamilla systir, mæli með síðunni hennar fyrir þá sem hafa gaman að drykkjusögum
-blog.central.is/tengda-mamma Magga móðursystir, hún særir blygðunarkenndir
-www.ihald.is Skoða hana reyndar ekkert daglega, en hér getur fólk skoðað pólitík sem að mínu mati er viðbjóðsleg
-www.politik.is hér er
rétta og
góða pólitíkin að mínu mati og ég er í ritstjórn þessarar elsku.
Fernt matarkyns sem ég held uppá:-ananas
-pizzur
-tekex
-Ópal
Fjórir staðir sem ég vildi heldur vera á núna:-í rúminu mínu, ég er þreytt
-heima hjá mömmu og pabba að klappa kettinum mínum
-í ræktinni
-í spennandi ævintýraferð úti í buska
Fjórir bloggarar sem ég klukka:-Berglindýr
-Hugi
-Tóta Systir
-Júlía systir
posted by Hildur at 1:09 PM
Ég hlakka til þegar Silvía Nótt fer í Júróvisjón, það er alveg kominn tími til að Íslendingar sýni þor til að senda eitthvað annað en klisjukennt popp í keppnina. Ég verð líka að segja að hún Ágústa Eva er augljóslega hæfileikarík með eindæmum.
Í tilefni af því má geta þess að ég gerðist dónalega ölvuð á laugardagskvöldið, með tilheyrandi minnistapi og fleiru skemmtilegu. Afleiðingarnar af því eru auðvitað þær að systur mínar eru búnar að afneita mér, vinkonurnar þykjast ekki þekkja mig og meðframbjóðendur mínir úr Hlistanum standa í ströngu þessa dagana við að líma yfir myndirnar af mér á öllum plakötum innan skólans og setja myndir af öðrum í staðinn og afmá öll ummerki eftir mig á listanum. Ég man þó eftir því þegar einn táningsstrákur, nánar tiltekið fæddur 1988, reyndi eins og vitlaus maður að fara í sleik við mig. Ég jesúsaði mig í bak og fyrir og sagðist vona að hann tæki viljann fyrir verkið, þetta hefði einfaldlega ekki verið á stefnuskránni hjá mér þetta kvöldið. Þá varð hann greyið ýkt sár og sagði að það væri ekkert honum að kenna að vera ekki eldri en þetta, hann hefði komist inn á staðinn af því að hann þekkti dyravörðinn. Hvernig honum gekk það sem eftir var kvöldsins veit ég ekki, en tel mig nú vita að helsta áhyggjuefni táningspilta nú til dags sé það að það er skortur á hálfþrítugum, fullum konum sem vilja fara í sleik við þá.
En þar sem ég er orðin það fullorðin þá er ég farin að sýna þá skynsemi ef ég er á annað borð orðin þetta meðvitundarlaus og slefandi af ölvun þá reyni ég mitt besta til að láta renna af mér með að enda kvöldið á barnum sturtandi í mig vatnsglösum og fer svo og fæ mér sveitta pizzu áður en ég fer heim. Nema hvað að ég stóð þarna á barnum seint um kvöldið með vatnsglas í hendi, og þá kom einhver ferköntuð meiraprófsfrauka að máli við mig, hrinti mér á barborðið þannig að vatnið skvettist yfir mig alla (sem var kannski lán í óláni þar sem mér veitti kannski ekki af kaldri sturtu), og sagði að ég væri ömurleg og heimsk belja og tjáði mér með steyttan hnefann að hún hefði nú barið fólk fyrir minni sakir. Ég gapti í forundran yfir óforskammelsinu og fylgdist með einhverjum kunningjum hennar draga hana í burtu til að forða henni frá vandræðum. Þegar hún var á brott klappaði einn ungur maður mér á öxlina og sagði mér að taka þessu ekkert nærri mér. Og hughreysti mig með orðunum: "Þetta var örugglega bara femínisti".
Þannig að nú skil ég af hverju fólk er svona mikið á móti okkur femmunum. Það er ekki bara vegna þeirrar gegndarlausu síngirni og frekju að vilja jafnrétti kynjanna, heldur líka vegna tilhneigingar okkar til að hrinda fólki og hóta því barsmíðum.
posted by Hildur at 12:56 PM