Ég var í ræktinni áðan, ég slysast jú stundum þangað til að taka hressilega á því og fá útrás. Nú þegar ég taldi mig vera búna að svitna nógu mikið og teygja nógu vel á arkaði ég inn í kvennaklefann til að fara í sturtu og hafa fataskipti auk þess sem ég taldi mig eiga skilið að slaka vel á í gufunni. Mér finnst notalegast að vera ein í gufunni en stundum verður mér ekki að ósk minni, og það varð mér ekki í dag. Því að inni í gufunni sátu tvær gelgjur að spjalli. Það er auðvitað í fínasta lagi þar sem þær eins og ég hafa gott af smá gufubaðsafslöppun á laugardegi. En því miður tókst mér ekki að leiða spjall þeirra stallsystra hjá mér þótt ég léti eins og ég heyrði það ekki. Þær voru nefnilega að tala um jafnrétti kynjanna og báðar voru þær sammála því sem önnur þeirra orðaði pent í einni setningu: "Ég meina ég þoli ekki svona jafnréttisbull og kvenréttindi, þetta er bara fyrir ljótar, reiðar konur."
Takk fyrir það. Blessunarlega gengst ég fullkomlega við þeirri staðreynd að ég er í eðli mínu öskureið fauka sem lætur í sér heyra (fyrirbæri einnig þekkt sem kvenmaður með skoðanir), og ég ætla rétt að vona að ég sé nógu ljót fyrir þær og aðra. Því að ef ég er bæði reið OG nógu ljót, þá fæ ég að hafa það sem mig langar að hafa, sem er jafnréttisbull og kvenréttindi. Mig langar að hafa kosningarétt, kjörgengi, fjárhagslegt sjálfstæði, vera metin að verðleikum en ekki eftir legu þvagfæra og ég vil ekki þurfa að velja á milli barneigna og starfsframa frekar en karlkyns vinir mínir og skyldmenni. Nú kunna einhverjir lesendur að hlæja innra með sér yfir því að ég sé ekki alveg með á hreinu hvort ég sé
nógu ljót fyrir allt þetta, en vandamálið er væntanlega það að mamma og pabbi hafa stundum í hreinum almennilegheitum sagt mér að ég sé ekkert endilega mikið ljótari heldur en sumt fólk. Hugsanlega ætti ég ekkert að þurfa að spyrja mig að því. Því að ef ég væri ekki ljót heldur ein af fallega fólkinu þá kannski hefði ég engan áhuga á öllu ofangreindu og hefði sjálfssagt enga löngun upp á dekk. Það er svona.
posted by Hildur at 5:41 PM
Jónína Ben og tölvupósturinnGærdagurinn var bara venjulegur. Ég skoðaði tölvupóstana hennar Jónínu Ben og setti hlekk yfir þá hérna til hægri á síðunni. Skoðist að vild.
Góða helgi!
posted by Hildur at 9:17 AM
Alveg verð ég að segja að þetta Kastljós er eitthvað það mest ósexý sjónvarpsefni sem til er í heiminum. Það er ógeðslega markaðsvætt og fyrir vikið rembingslegt og tilgerðarlegt. Svo eru auglýsingar út um allan bæ með myndum af Sólheimaglotturunum úr þáttunum eins og þær láti mann eitthvað vera æstan í að glápa á þessa fullkomnu tilgerð.
Halló! Þetta er ríkisrekið sjónvarp. Af hverju geta fréttaskýringarþættir ekki fyrir vikið verið með vinalega kommúnískt yfirbragð? Ég meina það. Þá bið ég frekar um Bauxmiðla.
posted by Hildur at 1:37 PM
Hér með tilkynnist að undirrituð er orðin svona ömurleg heilsufrík sem má ekki heyra minnst á orðið "áfengi"... fyrr en síðustu helgina í mars. Það er nú bara svona, ég er komin á svo helvíti gott skrið í ræktinni að ég get ekki hugsað mér að missa dampinn hverja einustu helgi. Svo er ég orðin gömul og slöpp.
Vín er klúður sagði Jón Lúður. Það er mitt mottó núna.
posted by Hildur at 3:16 PM
Ég horfði á þáttinn "Kallarnir" á Sirkus í vikunni, man ekki hvort það hafi verið á fimmtudag eða föstudag eða hvað. Allavegana þá má segja að mér fundust sumir brandararnir nokkuð góðir þótt ég verði að viðurkenna að ég myndi ekki nenna að horfa reglulega á þetta. Mér finnst eitthvað svo augljóst að þessir þættir eru djók og ætlað að skemmta í stað þess að hafa einhver áhrif en kannski hef ég rangt fyrir mér. Ég nefnilega fór á Karaókíkvöldið á Gauknum í gær og haldið þið að helmingurinn af strákunum hafi ekki einmitt litið út eins og þeir hafi verið teknir í gegn af áðurefndum Köllum!? Það er að segja, með strípur, meira gel á hausnum heldur en hár, með furðulegar þrjár svona skallarendur á annarri hliðinni á hausnum (sem er by the way alveg hrikalega hallærislegt og ósexý að mínu mati), með spray on brúnku og tribal tattú! Hvort þeir voru keyrandi um á rándýrum bílum eða ekki veit ég ekki en mér finnst það mjög líklegt. Jæja, fólk má svosem hafa sinn smekk mín vegna og það að mér þyki eitthvað vera púkalegt þýðir kannski ekki endilega að það SÉ það. Og það má ekki skilja mig sem svo að mér finnist hallærislegt eða yfirborðskennt að hugsa um útlitið, því fer fjarri. Ég eyði sjálf miklum tíma fyrir framan spegilinn og snyrtandi mig og pælandi í fötum þótt ég klæðist reyndar dags daglega þægilegum einföldum fatnaði. Mér finnst líka mjög eðlilegt að karlmenn séu snyrtilegir, noti hárnæringu og rakakrem, hreyfi sig og klæði sig smart. En það er munur á því að leitast við að líta vel út og vera snyrtilegur til fara og að eyða að því er virðist öllum sínum frítíma í steraát og spray on brúnkumeðferðir og eyða öllum sínum peningum í flotta bíla. Mér finnst synd að menn sem geta safnað sér fyrir rándýrum bílum skuli ekki frekar reyna að ferðast og læra nýja hluti fyrir peninginn. Æ ég veit það ekki, kannski er þetta bara snobb í mér, eða kannski er aðalvandamálið það að mér finnst spray on tan ljótt og subbulegt, steraát gera menn afmyndaða og aflitað hár vera furðulegt. Nú eða kannski er ég bara ein af ljóta fólkinu sem er búið að vera ljótt svo lengi að það hefur ekki einu sinni smekk fyrir þeim fallegu. Slíkt fólk er allavegana töluvert algengt að dómi Kallanna.
posted by Hildur at 5:57 PM