Ég hitti selebbÍ dag hitti ég selebbið
Þorgrím Þráinsson í tengslum við vinnu sem ég er smám saman að byrja í. Þeirri vinnu mun óhjákvæmilega fylgja stóraukinn hittingur á selebbum og því ég og aðdáendur þessa bloggs því í góðum málum sem aldrei fyrr.
Ég nenni svosem ekki að tala um þetta fyrr en ég er komin í þetta af fullum krafti. En allavegana hitti ég selebb, það verður ekki frá mér tekið. Góða helgi
posted by Hildur at 2:35 PM
Einhvern tíman sagði ég við kunningja minn, mikinn rokkara, að ég væri ekki svona rokkari sjálf enda hiphop gella hin mesta. Þó kynni ég vel að meta gott rokk þegar sá væri gállinn á mér og úr þeim geiranum væri KORN í mesta uppáhaldinu. Hann svaraði því kurteisislega á þann hátt að ég væri lúði og þetta líktist því að segja: "Ég er mikill rokkari en kann þó vel að meta gott hiphop þegar sá er gállinn á mér og þar er Will Smith í miklu uppáhaldi."
En mér er sama. Ég var að hala niður nokkrum sígildum KORN lögum og hef gaman að.
posted by Hildur at 2:57 PM
Mig er alltaf að dreyma martraðir þess efnis að ég sé allsber á opinberum stað í margmenni. Það er víst einhver mögnuð sálfræði á bakvið þessa drauma en þeir eru allavegana mjög óþægilegir. Ég fékk einmitt svona martröð í nótt og það er svo fyndið að annað fólk í þessum draumum er alltaf svo vandræðalegt á svipinn, en segir aldrei neitt. Svo fatta ég allt í einu að kannski er ekkert viðeigandi að vera allsber og þá veit ég ekki hvað ég á að gera, hvort ég eigi að halda áfram að labba eins og ekkert sé eða hvort ég eigi að láta mig hverfa á bakvið eitthvað eða einhvern.
Daginn eftir þessa drauma er alltaf sérstaklega óþægilegt að mæta í búningsklefann eftir líkamsræktina. Ég bíð alltaf eftir því að allt í einu fattist hvað það er óviðeigandi að vera fatalaus í sturtunum.
posted by Hildur at 6:58 PM
Það er alltaf verið að kvarta undan talhólfinu mínu, fólki bregður svo þegar það heyrir það. Ég skil það ekki. Prófið að hringja í 6799529. Er þetta ekki bara falleg kveðja?
posted by Hildur at 6:38 PM
Þó svo að heilsuátak mitt sé í fullu gildi þá slysast ég stundum niður í dántán Reykjavík síðla kvölds um helgar. Í gær fór ég með vinkonum mínum á hina margfrægu staði Prövdu og Hressó, enda hressar gellur með eindæmum. Nema hvað að sökum fádæma veðurblíðu ákvað ég að "lifa svolítið villt" og skella mér í galopna pallíettuskó sem ég keypti í München í fyrra og hef ekkert notað síðan þá, enda bæði opnir og flughálir. Ég varð ekki drukkin á Prövdu í gær, í mesta lagi smá tipsí, en vegna þess hvað skórnir eru sleipir lenti ég í því að stíga í smá bleytu og renna á rassinn fyrir vikið. Það gerðist þegar ég var að labba frá saleninu og yfir í einn bás þar sem við vinkonurnar sátum á spjallinu, en rýmið þar á milli er töluvert opið og er meðfram barnum á neðri hæðinni, þannig að fall mitt á gólfið vakti óskipta athygli nærstaddra. Þegar í stað spruttu upp þrír herramenn til þess að hjálpa mér á fætur og spyrja hvort það væri ekki í lagi með mig, og tveir í viðbót stoppuðu mig á leiðinni aftur í sætið til þess að spyrja að því sama. Það var auðvitað í fínasta lagi með mig, ég meiddi mig ekkert og mér fannst ég sannarlega nógu hughreyst þegar ég settist aftur í sætið mitt til að ræða heimsmálin við vinkonur mínar. En fall mitt hefur ekki einungis vakið athygli karlmannanna því að svona tveimur mínútum eftir að ég datt arkaði ein haugdrukkin dama á nákvæmlega sama stað og datt alveg með rosalega dramatískum hætti, baðaði frá sér höndunum og veinaði hátt og snjallt. Ég sá ekki hversu margir brugðust við hennar falli en vonandi voru þeir að minnsta kosti jafn margir og brugðust við mínu, því að þá hefur planið virkað hjá henni.
Það má vera að einhverjir telji að ég verði seint sjálfskipaður sérfræðingur í að ná athygli karlmanna en eins og þessi dæmisaga sýnir þá leyni ég á mér. Stelpur, hringið í mig og ég skal sýna ykkur frábæra staði þar sem þið getið dottið með góðum árangri. Ég tek enga þóknun fyrir, ég lít á þetta sem hugsjónarstarf.
posted by Hildur at 7:12 PM