Að gefnu tilefni og mótteknum kvörtunum...Þá viðurkennist að það var illa orðað og vanhugsað hjá mér í þarsíðustu færslu að segja að ég
umbæri hægrisinnað fólk eins og það væri eitthvað sem maður þyrfti sérstaklega að stilla sig um að fordæma og forsmá. Ég á slatta af vinum og góðkunningjum úr röðum yfirlýstra hægrimanna og -kvenna og það sem ég meinti var að ég umbæri hægrisinnuna í þeim, en ég dæmi fólk eftir öðrum atriðum en stjórnmálaskoðunum. Hér með biðst ég velvirðingar á orðalagi mínu.
Hins vegar er mér skelfilega í nöp við kattahatara, enda eru kattahatarar drulluháleistar, sama hvar þeir standa í pólitík. Ég bakka ekki með það.
Góða helgi.
posted by Hildur at 1:09 PM
M-listinn er bara kominn í fréttirnar. Að vísu hefur fréttaritarinn verið eitthvað drukkinn og misskilið fyrir hverju M stendur, en allt annað er rétt. Ég var til dæmis í spreytani og aflitun og er farin að kalla mig Bíbí, svona til þess að ná til allra yngstu kjósendanna.
posted by Hildur at 10:30 AM
Þó svo að ég líti auðhyggju, græðgi, siðblindu og einfeldni hornauga þá umber ég hægrisinnað fólk. Hins vegar umber ég ekki hálfvita sem hata ketti. Það er því ekki beinlínis meðmæli við hægrimenn að
þessi hrákasmíð birtist bæði á tikin.is og hugsjonir.is. Ég þoli ekki svona ekkisens $%#&"! bjánaskap og væl yfir yndislegustu dýrum í heimi.
Tilvitnun:
Ekki stendur mér stuggur af hundi í bandi með eiganda sínum ef hann þrífur eftir hann og hirðir samkvæmt lögum, en lausir kettir vaðandi inn um glugga hjá fólki, mígandi og skítandi hvar sem er finnst mér hreinn óþrifnaður og vansi og finnst gengið á frelsi fólks til þess að geta haft glugga sína opna þrátt fyrir að einhver í hverfinu haldi kött. Kattahald í núverandi mynd er í raun heftandi fyrir annað fólk í hverfinu
Sko. Í fyrsta lagi eru kettir þrifanlegustu dýr sem til eru. Og í öðru lagi þá er þessari "mannvitsbrekku" nær að setja net fyrir gluggann sinn ef hún vill ekki ketti inn til sín. Nú ef hún vill í alvöru frekar banna lausagöngu katta þá verður hún að setja enn sterkara net fyrir gluggana sína af því að annars skríða rottur inn til hennar. Þær er kannski ekkert frelsisskerðandi??
Hildur has spoken
posted by Hildur at 10:14 AM
Það má með sanni segja að það er skemmtilegt að vera túristi í eigin landi í slagtogi við eldhressa Íra. Helgin var svo skemmtileg að ég held ég sé ekkert að tala um það sérstaklega, kannski set ég inn myndir við tækifæri. Já ég geri það og tala kannski smá um það þá.
Reyndar má ég til með að nefna að á djamminu með írska genginu um helgina vorum við meðal annars að tjútta á Sólon, og þar kom einhver ungur maður að máli við mig, grafalvarlegur á svipinn og sagði: "Ég veit hver þú ert" og ég svaraði: "Nú, hver er ég?" og hann svaraði: "Þú heitir Hildur". Ég mátti til með að spyrja hvernig hann vissi það eiginlega og hann var ekkert að skafa utan af því: "Það vita allir hver þú ert." Það er bara svona. Allt í einu er ég algerlega óafvitandi orðin fræg. Fíla ekki svona.
Nú og svo mætti ég einhverjum brasilískum innflytjanda sem sagði óspurðum fréttum að hann tryði á ást við fyrstu sýn og að hann vildi giftast mér. Ykkur rekur eflaust í rogastans þegar ég segi ykkur það að þetta er ekki fyrsta bónorðið sem ég hef fengið. Þvert á móti hef ég fengið þau all nokkur, en í öllum tilfellum hefur verið um að ræða útlendinga og/eða fulla menn, og enginn sem ég hef þekkt vel. Ég er reyndar ekki trúlofuð en það hefði kannski verið sniðugt ef það væru svona brúðkaupslúgur í Reykjavík alveg eins og í Las Vegas. Þá hefði ég kannski getað staðið við áramótaheit mitt fyrir árið 2006, en það er að gifta mig á árinu. Það er ekki skilyrði að sá heppni sé Íslendingur eða templari. En ég man þetta næst.
Nú og svo er
Bjössi með mér í bekk búinn að stofna nýjan stjórnmálaflokk, Miðvikudagslistann. Markmið þess lista er að gera miðvikudaga að frídögum. Það er aldeilis vel til fundið. Þá er alltaf stutt í næsta frí og maður er kannski alltaf timbraður í vinnunni. Ég hef verið skipuð sem gjaldkeri og almannatengslafulltrúi listans -enda hefðbundin flokkapólitík asnaleg- og ég hef því einungis eitt að segja að lokum:
X-M!
posted by Hildur at 5:55 PM