Ég er ánægð með Júróvisjónkeppnina. Lögin komu flest betur út á sviði en þau höfðu gert á myndbandi og það mátti tjútta við einstaka þeirra. Það er ágætis afrek hjá Íslendingum að hópur fólks hafi púað á Silvíu fyrir og eftir atriðið og hún skilaði sínu með stæl. Hver hélt annars að við myndum komast áfram?? Ekki ég. Og ég er fegin því að í þetta skiptið skuli markmiðið hafa verið annað en sigur.
Júróvisjónnördaáhugamálið mitt skilaði mér silfurmedalíu í gærkvöldi í keppninni "Júróvisjónfrík Ungra Jafnaðarmanna í Reykjavík 2006". Það er alger bömmer að ég vann ekki. Í alvöru; bömmer.
posted by Hildur at 10:20 AM
Evróvisjóóóóóón!!Ég vil byrja á að þakka öllum þeim sem óskuðu mér árnaðar á tuttugasta og sjötta afmælisdaginn síðastliðinn þriðjudag. Takk takk, þið eruð öll sæt og góð!
Svo verð ég að segja að spenningurinn fyrir júróvisjón er mikill. Sem forfallin júróaðdáandi verð ég að segja að lögin í ár eru með slakasta móti. Síðastliðin tvö ár hefur verið slatti af eftirminnilegum og skemmtilegum lögum í bland við þau verri en þeim góðu lögin eru færri þetta árið. En við látum það ekki slá okkur út af laginu.
Mér finnast bestu lögin í ár vera frá Armeníu, Albaníu, Bosníu Herzegóvínu, Rúmeníu og Finnlandi. Það á þó alveg eftir að koma í ljós hvernig þau koma út á sviði.
Prost!
posted by Hildur at 11:16 AM

Þessi mynd kemst ansi nálægt því að líkjast mér í dag en ég fæddist á Hvidovre hospital í Kaupmannahöfn þann 16 maí árið 1980 við mikinn fögnuð bæjarbúa. Maður er víst enginn unglingur lengur en ég læt það ekki slá mig út af laginu. Munið bara næst þegar þið hittið mig að vera rosa hissa og segja: "Bíddu... þúrt ekki orðin tvítug, er það?"
posted by Hildur at 10:27 AM

Þetta eru skórnir sem ég ákvað að vera sótölvuð og vitlaus í í gær. Það væri kannski ekki frásögur færandi nema af því að þegar ég var að klöngrast heim til mín í svartasta miðbænum hljóp einhver gelgjan framhjá mér, píkuskrækjandi, hlæjandi og með barminn framglenntan, þið þekkið þetta. Ástæðan fyrir háttalaginu var sú að einhver gæi var að elta hana, og hann lét sér ekki nægja að hlaupa framhjá mér, ég var svo rosalega mikið fyrir honum að hann hrinti mér harkalega í jörðina til að þurfa ekki að taka sveig. Fallið var vitaskuld hátt og ég lyppaðist niður örend, og þegar ég var lent fattaði ég hvað ég var að deyja í fótunum og öllum skrokknum og ákvað að sitja bara í smá stund. Ég held ég hafi verið búin að sitja í svona eina mínútu á jörðinni, hræðilega sorrý yfir eigin harmleik, þegar löðruglubíll keyrði að og þar til gerð löggukona steig út til þess eins að spyrja mig hvort ég ætlaði ekki að rísa á fætur og fara heim til mín. Ég stóðst ekki mátið og benti henni á að bærinn væri fullur af skúrkum, eiturlyfjabarónum, Sjálfstæðismönnum og ribböldum og það væri alger tímasóun að yrða á mig. En svo fór ég heim.
Ruglið alltaf í þessari löðruglu.
posted by Hildur at 3:33 PM