Spurning um hræsni?Þegar ég var stödd í Eymundsson áðan að skoða tímaritarekkann með það fyrir augum að festa kaup á Time og Der Spiegel (sem ég les bæði stundum) rifjaðist upp fyrir mér að undanfarin skipti þegar ég hef verið á leið í millilandaflug og verið að næla mér í lesefni þá hef ég markvisst virt svokölluð glamúrtímarit að vettugi. Ástæðan fyrir því að ég ákvað að hunsa þau á sínum tíma var sú að ég var algerlega komin með upp í kok af greinum um
-hvernig ætti að verða sexý
-hvernig ætti að verða sexý í augum karlmanna
-hvernig ætti að verða mjó
-hvernig stellingar í kynlífi blekktu hinn aðilann þannig að honum sýndist maður vera mjórri en maður er
-hvað karlmenn vildu í fari kvenna
og svo framvegis.
Nema hvað. Síðan ég tók þessa stórgóðu ákvörðun þá hef ég ekki fest kaup á ónefndum tímaritum af slíku tagi og varð alveg örugglega vandaðri og sjálfstraustari manneskja fyrir vikið. En aldrei tók ég þessa staðreynd til íhugunar þegar ég byrjaði að vinna við ritstörf hjá
Fróða fyrir þremur mánuðum sléttum. Ég er að vinna í sérrita- og kynningadeild og fyrir utan að vera að vinna efni í sértímarit um heilsu, Kringlutískuna og ferðalög (þrenn aðskilin tímarit) þá er ég líka að skrifa kynningar um alls kyns vörur. Meira að segja bara í gær var ég að þýða grein úr þýska Vouge og vinna kynningu upp úr því -um hrukkukrem!
Flestar þessar kynningar fara í helsta kvennatímarit landsins, Nýtt Líf.
Já skjótt skipast veður í lofti. Reyndar fjallar Nýtt Líf alls ekkert um ofangreind atriði sem gerðu mig á sínum tíma afhuga glamúrtímaritum þótt töluvert sé fjallað um tísku og snyrtivörur. En ég get ekki sett mig upp á móti slíku, ég bæði klæði mig og farða. Æ kannski er ég núna bara að reyna að sverja af mér alla hræsni eftir allt saman.
posted by Hildur at 12:55 PM
Um daginn sá ég þátt í sjónvarpinu þar sem því var haldið fram að sterk tengsl séu á milli magns testósteróns í líkamanum og lengdar baugfingurs miðað við vísifingur. Því var haldið fram að því lengri sem baugfingur er heldur en vísifingur þeim mun meira testósterón er í líkamanum og því hraðar getur maður hlaupið, og ég veit ekki betur en að þetta gildi bæði um karla og konur. Það vill svo til að mínir baugfingur eru sjáanlega styttri en vísifingurnir og því er ég kvenleg með eindæmum (ekki það að það komi mér neitt sérstaklega á óvart). En það þýðir væntanlega að ég er alls ófær um að hlaupa hratt þannig að það er spurning um að beila bara á þessu maraþoni.
posted by Hildur at 11:31 AM
Var að spögglera..Ætli það verði einhvern tíman í nánustu framtíð búið að skoða öll flott hús á Íslandi og smart íbúðir, smekkleg húsgögn og flippaðar innréttingar? Kannski verður einhvern tímann tilkynnt: Jæja nú er allt sem er flott og flippað búið að koma í fjölmiðlum þannig að ef einhver vill fjalla um húsakynni eru bara þessi venjulegu og ljótu eftir
posted by Hildur at 3:51 PM
Bitin af hundshelvítiskvikindiÍ gær var ég að labba í Barmahlíðinni þegar snaróður rakki kom hlaupandi á móti mér og beit mig. Þetta var svona krulluhundsfjandi (ég hef alltaf haft töluverðan ímugust á krulluhundum og chihuahua hundum og sú andúð er að því er virðist gagnkvæm. Þeir verða alltaf alveg sérlega trítilóðir þegar þeir sjá mig). Hann náði sem betur fer ekki að blóðga mig þessi þar sem hann beit mig í fótinn sem ég kippti strax að mér þannig að hann rétt náði taki á buxnaskálminni. Ég meiddi hann ekki á móti eins og sumir hefðu kannski gert. Ég kem nefnilega fram við dýr eins og börn. Ég held á þeim ef þau vilja vera í fangi, hugga þau ef þau eru leið og tek þátt í leikjum þeirra þegar þess er óskað. Ef þau hins vegar eru óalandi og óferjandi forðast ég þau einfaldlega -en ræðst aldrei á minni máttar þótt þau ráðist stundum á mig. Ég skammaði þó eigendur þessa hunds og sagði þeim að það minnsta sem þau gætu gert væri að hafa hann í vel stuttu bandi ef hann ætti að vera úti meðal fólks.
Svo fór ég að hugsa; boðar ekki ógæfu að vera bitinn af hundi? Endilega minnir mig að ég hafi lesið það einhvers staðar. En svo fattaði ég að hundsbitið er sjálf ógæfan sem eitthvert hindurvitnið hér á dögunum hefur boðað...
posted by Hildur at 10:20 AM
HM bitteHér er ég á kanti ásamt Jóhönnu nokkurri Sænsku. Þetta var í hálfleik Þýskó-Svíþjóð leiksins og við vitum nú hvernig það fór.Á föstudaginn er leikur gegn Argentínu og allir í fjölskyldunni minni halda með Argentínu, nema ég. Það lið er ekki svipur á sjón síðan hinn útúrkókaði og flippaði Maradonna var og hét. Svo hef ég aldrei farið til Argentínu.
Ætli það besta við HM sé ekki þó að nú hef ég enga afsökun fyrir að vera ekki í 90 mínútur á stiga- og hlaupavélum í Laugum, þar sem leikirnir eru sýndir. Já sei sei.
PS. Ég var að horfa á viðtal við David Beckham á Sýn og sá þar snilldar þýðingu á útlenska orðinu "stalker". Það var þýtt sem "eltihrellir". Ég vil fleiri svona skemmtilegar þýðingar í sjónmarti og ég vil líka að fólk fari að temja sér notkun þeirra.
posted by Hildur at 5:40 PM