Skrapp í Kringluna áðan. Allt í lagi með það. Nema að ég var að labba út úr búðinni
La Senza þegar á mig sveif brosmildur ungur maður, svo brosmildur að hann hreinlega minnti á frambjóðanda. Hann sagði við mig með þykkum austur- og/eða suðurevrópskum hreim: "Á ég að skútla þig?" eða ég get svo guðsvarið að það var það sem ég heyrði hann segja. Ég horfði á hann skilningssljó og spyrjandi og sagði á móti: "Hérna.. hvað sagðirðu?" og þá svaraði hann "Nei allt í lagi bara" og arkaði sína leið. Heyrn mín er svosem ekki sú besta í heimi þannig að sennilega höfum við misskilið hvort annað. En ef ég heyrði hann rétt finnst mér líklegast að hann hafi hreinlega viljað bjóða mér far. -Eitthvert. Og ef ég hefði verið hengdari upp á þráð og merkilegri með mig og í alla staði ömurlegri en ég er (ef það er hægt) hefði ég sjálfssagt svarað: "Klukkan er tvö um dag. Ég var að labba út úr nærfatabúð með poka í höndinni. Í verslunarmiðstöð. -Nei, þú átt ekki að skútla mig."
En sem betur fer er ég ekki svo forhert og asnaleg.
posted by Hildur at 5:38 PM
Pólitískt röfl á föstudegiÞá er það staðfest. Íhaldið í borginni er í raun
sósíalistaflokkur. Mikið óskaplega er jákvætt að fá staðfestingu á því og mikið vona ég að ríkisstjórnin eigi eftir að verða vinstristjórn á allra næstunni, sama hvaða nöfnum það kann að nefnast. Það er kannski ekkert skrítið að Samfylkingin hafi tapað fylgi þegar valið stendur nú bara á milli a)bændaflokks b)sósíalistaflokks c)sósíalistaflokks d)sósíalistaflokks og e)sósíalistaflokks. En óskaplega held ég að frellarnir í íhaldinu séu sniðgengnir.
Annars var ég að ramba inn á síðu Snorra nokkurs í Betel. Venjulega gerði ég slíkt ekki að umtalsefni mínu, nema að ég sá svo frámuna vonda færslu um Heather Mills og konur almennt, sjá
hér. Hann heldur því fram að Heather Mills sé ómerkilegur pappír af því að hún er falleg kona með fortíð. Hann útmálar slíkar konur sem syndgara af verstu gerð sem karlmenn þurfi sérstaklega að vara sig á. Já aumingja karlarnir sem neyðast til þess að láta freistast til þess að leggjast með konum með fortíð, ég tala nú ekki um þegar þeir eru ginntir til þess að kaupa vændi eða horfa á klám. Það er aldeilis að það þarf að halda konum í skefjum, vesalings ósjálfbjarga körlunum til varnar! Í raun á ég bágt með að gera upp við mig hvort hér sé um að ræða megna kvenfyrirlitningu eða karlfyrirlitningu, nema hvort tveggja sé!
Þá má þess geta að Heather Mills lenti í miklum ógöngum á sínum yngri árum, mamma hennar yfirgaf hana sem barn, hún ólst þá upp hjá ofbeldisfullum föður og strauk að heiman sem unglingur og hóf feril sem fyrirsæta, þar sem hún meðal annars sat fyrir nakin. Síðan lenti hún í umferðarslysi og missti annan fótinn. Þrátt fyrir allt þetta hefur hún getið sér orð sem baráttukona fyrir náttúru- og dýravernd auk þess sem hún hefur verið málsvari fólks sem hefur misst útlimi. Allt eru þetta virðingaverðir málstaðir og hún hefur gert mun meiri góðverk en nokkru sinni afturhaldssamir sértrúarleiðtogar á Íslandi. Svo kemur einn úr þeirra röðum og fordæmir hana -í nafni gvuðs? Svei.
posted by Hildur at 10:17 AM
Einu sinni sagði ég frá því að ég, tónlistar-(og sérstaklega rokk)óvitinn með meiru, hefði uppgötvað KORN og fundist það prýðisgóð hljónst. Nú er ég, með hjálp Morfeusar, búin að uppgötva System of a Down. Það er næstum ALLT gott með þeim!
posted by Hildur at 1:27 PM
Búið að eyðileggja HM fyrir mérEf þið heyrðuð grábölvaðan púka arkandi um götur bæjarins í gærkvöldi bölvandi afturábak á latínu
-acitevleh sumixam sulubaid sugnuf relecs- þá var það bara ég. Ég er svo fúl að þýskararnir töpuðu fyrir ítölsku vælukjóunum að ef einhver kemur nærri bít ég svo fast að undan svíður.
posted by Hildur at 11:07 AM
Eins einkennilegt og það kann að hljóma, þá hef ég eitthvað svo lítinn tíma til að blogga þessa dagana..
posted by Hildur at 2:55 PM