Flestir kannast við ógæfuna sem fylgir því að fá "ljótuna" þegar eitthvað skemmtilegt stendur til, einhver svona atburður þar sem maður þarf að vera fallegur. Nema hvað, ég er búin að vera með króníska ljótu í allt sumar, eða eiginlega óslitið síðan um áramótin. Mér datt svona í hug hvort það væri kannski sniðugt að skella sér bara til lýtalæknis. Ekki til þess að laga ljótuna heldur til dæmis til þess að láta græða í mig sílikonvarir. Því að ef ég gerði það væru sílikonvarirnar það sem fólk horfði á, ekki ljótan. Fólk myndi ekki benda á mig og hvísla "Þarna er konan með ljótuna" (ef það á annað borð gerir það) heldur "Þarna er konan með sílikonvarirnar".
Þetta er ekki verri hugmynd en hver önnur...
Góða helgi
posted by Hildur at 12:41 PM
Nóttin var mögnuð!Ég veit hvað þið hugsið þegar þið sjáið svona fyrirsögn. Sum ykkar eruð búin að lesa of mikið af klámfengnum götublöðum og aðrir hafa lesið of mikið af skáldsögum í Rauðu seríunni. En það var ekkert svoleiðis í gangi. Ég glápti smá á sjónvarpið í gærkvöldi, las smá og lagðist svo til hvílu. Þegar ég var alveg að sofna, var svona á milli svefns og vöku, þá fór mig svona að hálf dreyma magnaða hugmynd að glæpasögu. Ég vaknaði strax til þess að missa hana ekki út í einhverja draumavitleysu, og byrjaði að hugsa um hvernig ég myndi hafa söguþráðinn -Frá byrjun til enda. Og það er skemmst frá því að segja að ég skapaði þarna hreint út sagt frábæra glæpasmásögu í huganum. Á eftir þegar ég er búin að vinna og fara í ræktina ætla ég ekki að kveikja á sjónvarpinu, lesa bók eða kíkja á tryllt djamm. Ég ætla að setjast fyrir framan tölvuna og skrifa. Ég er nefnilega búin að sannfæra sjálfa mig um að ég sé efni í ágætis penna -þó ég segi sjálf frá!
posted by Hildur at 10:47 AM
Sá dagur hlýtur að renna upp að ég ber í borðið og segi: "Nú er ég hætt að láta fólk fara í taugarnar á mér!". Þegar ég var flokksstjóri í unglingavinnunni var mér kennt hið skynsamlega viðhorf, að ef einhver skjólstæðingur minn færi í taugarnar á mér ætti ég ekki að pirrast yfir þeim atriðum við hann sem færu í taugarnar á mér, heldur spyrja sjálfa mig: "Hvað er það við mig sem fær mig til þess að vera pirruð á þessum einstaklingi?" og vinna úr því þannig. Nema hvað, unglingarnir voru ekkert pirrandi þótt þeir væru gelgjur, ég fór bara að hlæja þegar þeir voru eitthvað að væla og rexa. Það er hins vegar sumt fullorðið fólk sem gerir mér lífið leitt. Sumir virðast hreinlega vera fæddir svo drepleiðinlegir að maður hlýtur að álykta að allar heimsins áhyggjur séu á þeirra herðum. Og svo smita þeir út frá sér leiðindin þannig að þeir eyðileggja fyrir öðrum lífsgleðina.
Nú er ég hætt að láta leiðindi í öðru fólki gera mér lífið leitt og láta mig fara í vont skap. Ég ætla að brosa framan í leiðindapésana og kveikja á sjarmanum þannig að þeir fá bara samviskubit yfir því að vera að menga andrúmsloftið í kringum mig með fýlu og önuglyndi.
posted by Hildur at 10:03 AM
Athyglisverð spurningÉg var að fá athyglisverða spurningu. Ég var nefnilega spurð hversu mörg selebb ég hefði tekið tali síðan ég byrjaði að vera blaðamaður. Það þótti mér skemmtileg spurning. Ef ég skipti mínum viðmælendum í 1.selebb 2.semi-selebb og 3.hið íslenska meðalljón, þá eru allavegana nokkrir í hverjum flokki fyrir sig. Mörkin þarna á milli flokka eru hins vegar oft svo óljós, og jafnvel matsatriði, þannig að ég gat því miður ekki svarað þessari annars áhugaverðu spurningu.
Annars var ég að fá blaðamannapassann minn í hús. Hann er í svona leðurvasa og framan á stendur gylltum stöfum "Press". Næst þegar ég fer til útlanda ætla ég að vera dugleg að veifa honum og sjá hvort ég fái sérmeðferð einhvers staðar.
posted by Hildur at 12:45 PM
Það kom í hlut
Murakamis að stytta mér stundir um helgina og eigi græt ég það, enda maðurinn snillingur. Og er ég þá síst að ýkja.
Annars er saga að segja frá því að í ræktinni áðan var ekkert laust upphitunartæki nema eitt sem var beint fyrir framan sjónvarpstæki þar sem Skjár 1 var sýndur. Venjulega myndi það ekki skipta mig máli nema af því að á dagskrá var hinn hræðilegi þáttur Bachelorette. Yfirleitt hef ég verið fljót að skipta um sjónvarpsstöð þegar hann hefur verið á dagskrá, en nú var það ekki mögulegt. Fyrir utan að raunveruleikasjónvarp er hin mesta ömurð í alla staði, þá held ég að Bacelorette taki mest á. Sko, hann gengur út á að gera hóp af karlmönnum að þvílíkum fíflum og búa til einhverja rómantík í kringum eina konu. Og það er alveg einstaklega vandræðalegt að sjá karlmenn niðurlægða á þennan hátt. Ekki svo að skilja að ég telji konur eiga slíkt frekar skilið, en maður er einfaldlega of vanur því að 90% af því sjónvarpsefni, þar sem konur spila eitthvert hlutverk, snýst um að niðurlægja þær og láta sem þær séu upp til hópa ekkert nema heilalaus kjötstykki, veimiltítur og gjörsneyddar allri rökhugsun. Þær sem gerast svo dónalegar að reyna að hafa einhver áhrif á eigin örlög eða ég tala nú ekki um láta í sér heyra þegar þeim er misboðið, nú þær eru útmálaðar sem reiðar, grimmar og vondar. Og þeirra reiði, grimmd og vonska er að sjálfssögðu tákn um að konur séu hættulegra kynið, og spretta aldrei af neinu nema órökréttri bræði, hormónatruflunum (þær eru taldar vera á túr) eða karlmannsleysi.
En að sjá karlmenn, normið í samfélagi okkar og allra annarra, gerða að fíflum með sama hætti, það tekur á. Það væri kannski "jafnrétti" ef stefnt yrði að því leynt og ljóst að fyrir hverja niðurlægingu á konum yrðu karlmenn niðurlægðir í nákvæmlega sama magni? Til dæmis væru þeir látnir líta út fyrir að óska sér einskis heitar en að dilla sér fáklæddum fyrir framan ríkar konur með gulltennur og ef þeir yrðu reiðir væri það alltaf skrifað á brundstíflu eða veiklyndi þeirra. Já og svo fengju þeir alltaf jafn lág laun og konur.
Nei sem betur fer er ég ekki "þannig jafnréttissinni".
posted by Hildur at 6:04 PM