Er þetta eðlilegt?Einn lesandi þessarar síðu var að spyrja mig hvort ég hefði í alvörunni verið að koma út úr skápnum í síðustu viku samanber bloggfærsluna frá 12.ágúst. Ég segi nú bara Hjálpi Mér Allir Heilagir. Að það sé til fólk sem heldur að ég sé að tala í fullri alvöru þegar ég er augljóslega að gantast!
Ekki svo að skilja að mér sé ekki sama þótt ég sé ranglega talin annarrar kynhneigðar en ég er, og í ljósi þess að við klikkuðu femínistarnir höfum orð á okkur fyrir að hata karlmenn eins og pestina þá áfellist ég ekkert viðkomandi fyrir að hafa tekið þeim parti alvarlega. Sú tilhugsun, um að einhver hafi trúað því þegar ég sagði kristilega íhaldsmenn alltaf hafa rétt fyrir sér, hryllir mig hins vegar. Tilgangurinn var vitaskuld að hæðast að þeirra rökleysu alltaf hreint, og ég ætla rétt að vona að fleiri hafi ekki trúað þessari bull færslu minni!
posted by Hildur at 5:16 PM
Hún Kamilla systir er um margt merkileg. Hún er ekki einungis lífskúnstner, altmuligtkvinde og tveggja barna móðir, heldur er hún líka með athyglisverðustu ungskáldum þjóðarinnar. Því miður vita það hins vegar ekki nógu margir þar sem hún er í smá tilvistarkreppu og verður brjáluð þegar hún er kölluð réttnefnunum ungskáld og lífskúnstner. Þess vegna kann hún ekki við að gefa ljóðin sín út sjálf, af ótta við þessa titla. Ég hins vegar hef stundum skoðað krassblokkirnar hennar og þar kennir ýmissa grasa. Ég má til með að birta hér eitt nýjasta ljóðið sem ég sá að hún hafði hripað niður. Það ber hinn skemmtilega titil "ÁN TILLITS" og er kennt við E.Kam:
Hver morgundögg
er dropi í ólgandi hafið
Hver einmana sál
er dropi í mannhafið
Aldur þessa ljóðs er ekki alveg á hreinu, en eins og fyrr segir er það nýlegt. Ég má hins vegar til með að bæta við hinu ógleymanlega ádeiluljóði um
Garðslönguna sem er orðið tveggja ára gamalt:
Garðslangan
Græn og sver sveigist hún um garðinn
hlykkjast milli beða og stétta
ég finn að friðurinn færist yfir mig
-EKE Ágúst 2004
Þetta ljóð hefur reyndar þegar gert hana að stjörnu hjá ljóðunnanda- og lífskúnstneraklíkum landsins.
posted by Hildur at 10:53 AM
Rekkognæsaðir!Ég sá í fréttunum í gær að Lithái nokkur ætlar að synda til Íslands með glás af undirskriftum í þakkarskyni fyrir að Íslendingar voru þeir fyrstu til að viðurkenna sjálfstæði Litháa. Það er auðvitað hið besta mál og skiptir þá miklu máli; en ég vona að ég sé ekki ein um að hafa hálf flissað þar sem mér var hugsað til Thule auglýsingar nokkurrar. Á bókmenntahátíð í fyrra var einmitt einn höfundur frá Eistlandi að mig minnir, sem byrjaði á því að taka fram að hann væri stoltur af því að fá að lesa á Íslandi af því að við hefðum verið svo elskulegir að rekkognæsa þá. Þá hló salurinn við og hélt að hann hefði verið að spauga.
"Hí djöst vent ðer and rekkognæsd them" -er setningin sem ég er með á heilanum.
posted by Hildur at 10:22 AM