Í Kaupmannahöfn er til stór og mikil gata sem heitir Godthåbgade, en eins og glöggir vita er Godthåb danska nafnið á Nuuk, höfuðborg Grænlands. Einu sinni var ég að furða mig á því að Reykjavíkgade væri ekki til í Köben og þá var mér tjáð að einhver lítill og ljótur skítastígur héti Reykjavíkgade þar í borg. Það fannst mér hin mesta hneisa og stakk upp á því að við myndum hefna okkar og skíra einhverja álíka ljóta og litla götu, eins og til dæmis Fischersund, upp á nýtt og kalla hana Kaupmannahafnarbreiðstræti.
Mér hefur reyndar ekki orðið að ósk minni, en þess má geta að það er til fullt af svona annarrar-bæjar-götunöfnum erlendis en lítið af þeim mér vitanlega hér á landi. Jú jú, Reykjavíkurvegur í Hafnarfirði en ég man ekki margar fleiri.
En mér finnst að við ættum að taka þennan sið upp og skíra allar nýju göturnar á mörkum hins siðmenntaða heims (Grafar- og Norðlingaholti og fleiri stöðum) einhverjum svona nöfnum. Það er náttúrulega algert hneyksli að það sé til heilt hverfi með bjánalegum kristilegum nöfnum á borð við Maríubaug, Kristnibraut og fleiri, og því segi ég;
af hverju ekki að endurskíra þær? Þær gætu heitið virkilega skemmtilegum nöfnum á borð við
Mbabanegata,
Ouagadougoustræti,
Murmansktröð og svona mætti lengi telja. Þarf að viðra þessa hugmynd við þá sem öllu ráða.
posted by Hildur at 4:37 PM
Hvað eftir annað er ég að standa mig að því að trúa einhverri frásögn eins og nýju neti, þrátt fyrir að hún hafi augljóslega verið sögð í gríni. Fattarinn minn er svosem ekkert sá besti í heimi, en það er nú bara þannig að ég trúi almennt því sem mér er sagt. Og svo líður mér eins og kjána þegar ég stend mig að því að trúa vísvitandi, augljósum skröksögum.
En ég er búin að ákveða að hætta að láta mér líða eins og kjána þegar svo ber undir. Sá sem lýgur mig fulla af ekkisens bulli er kjáni en ekki ég.
posted by Hildur at 10:09 AM
Í öllu þessu spurningaflóði um hvort ég ætli ekki að vaka frameftir og "kjósa Magna" leyfist mér að tilkynna:
Ég nenni ekki að vaka eftir Íslandsvininum Megný, ég er orðin álíka leið á æðinu í kringum hann eins og ég er leið á Sjálfstæðisflokknum.
posted by Hildur at 3:04 PM
Og hvað á barnið að heita?Þegar hún mamma mín fékk sér gulan Opel Corsa var hún svo lukkuleg með gripinn, sem þótti hræðilega krúttaralegur, að hún tók upp á að kalla hann Hnoðra. Þótti mér það hinn mesti bjánaskapur og fussaði og sveiaði yfir uppátækinu. Nema hvað, nú er ég komin á eitt stykki krúttaralegan rauðan Opel Corsa, og þegar foreldrar mínir spurðu mig í gríni hvað ég ætlaði að kalla hann sagði ég: "Nú, auðvitað á hann að heita Dúlli"
Það er skemmst frá því að segja að rennireiðin hefur síðan verið kölluð Dúlli án þess að ég geti að gert.
Bílkynhneigð kalla þeir þetta víst, fræðimennirnir, og er hinn versti pervertismi.
posted by Hildur at 9:44 AM
Heyrði svo skemmtilegan brandara á útlensku í gær:
A boss is like a diaper -always on your ass and full of shit
posted by Hildur at 9:42 AM
Sko
Hitti gamla kunningjakonu í gær. Þá meina ég sko frá því back in the days þannig að ég heilsaði henni ekki af fyrra bragði, verandi handviss um að hún myndi ekki þekkja mig aftur. En hún þekkti mig víst strax aftur og ávarpaði mig með nafni (þótt ég hefði gleymt nafninu hennar). Og ég spurði í forundran: "Manstu semsagt eftir mér?" og hún svaraði: "Já auðvitað maður, það muna allir eftir þér!"
Það finnst mér merkilegt, og þetta er ekki í fyrsta eða annað skiptið sem ég heyri að "allir" myndu eftir mér. Meira að segja hef ég heyrt því fleygt að "allir" vissu hver ég væri!
Ég veit að ég hef alltaf verið létt klikkuð og að það geti haft sitt að segja, en varla á svona eftirminnilegan hátt! Æ ég veit það ekki.
posted by Hildur at 5:39 PM