Alltaf fagna ég nýjum íslenskum sjónvarpsþáttum og nýjum grínþáttum í opinni dagskrá, og í samræmi við það fagna ég sérstaklega nýjum íslenskum grínþáttum. Ég sá einn svoleiðis í vikunni, en sá þáttur heitir Venni Páer. Ég verð að segja að ég skil ekki alveg þennan gaur, Venna Páer. Er þetta einhver gæi sem á að vera að leika sjálfan sig eða..? Allavegana finnst mér blasa við að maðurinn er ekki lærður leikari og útkoman er sú að hann gæti allt eins verið að lesa brandarana upp úr símaskránni eða Sumarauka Séð og Heyrt. Mér finnst nefnilega alltaf mikil sóun þegar góðir brandarar fara til spillis sökum kunnáttuleysis þeirra sem með þá fara.
Aðalhúmorinn í þessum Venna Páer sýndist mér eiga að snúast um ranga meðferð á orðatiltækjum -þar sem hann talaði um að hitta á naglann með höfðinu og sitthvað fleira- en því miður heppnaðist það ekkert sérstaklega vel. Hið sama heppnaðist hins vegar afbragðsvel hjá Bibbu á Brávallagötunni sem Edda Björgvins lék, en ég hló mig máttlausa þegar hún talaði um að hún mætti naga sig í handakrikana yfir einhverju og sæti eftir með súrt eplið.
Ennþá fyndnara er þó þegar fólk, sem notar orðatiltæki til að hljóma gáfulega, fer kolvitlaust með þau. Ég má til með að segja frá einum fyrrverandi manni ónefndrar frænku minnar. Við skulum kalla hann dulnefninu Vaff Gé en það dulnefni hefur þó ekkert með pólitík að gera (-enda er maður, sem býr í einbýlishúsi í Garðabænum (sem hann er búinn að borga upp) og er sárþjáður og niðurbrotinn yfir því að bílskúrinn rúmi ekki þrjá hömmera samtímis, fjandinn hafi það ekki mjög líklegur til að vera heitur stuðningsmaður Vaff Gé).
Sá maður var einu sinni í svo miklum bobba að það var hreinlega allt í lamaslysi hjá honum. Raunar var ástandið svo slæmt að hann komst ekki upp í nefið á sér. Ekki svo löngu síðar kvartaði hann undan því að það gengi allt gjörsamlega á afturendanum.
Stundum varð hann svo pirraður á látunum í krakkaskrílnum að hann sá sig knúinn til að kunngjöra: "Krakkar, þið keyrið mig brjálaðan!"
Um einhvern sem að hans mati var alveg sér á báti sagði hann: "Hann er bara einn úti á báti að róa."
Þegar hann keypti einu sinni ljót úr í útlöndum handa krökkunum sínum sem þau fúlsuðu við benti hann þeim hróðugur á að þessi úr væru að ríða eins og heitar vöfflur um alla Evrópu.
posted by Hildur at 5:00 PM
Andrésblaðaminning -af því að þetta rifjaðist upp fyrir mér.
Einu sinni í Andrésblaði voru einhverjir bófar að eltast við Andrés, og eltu hann alla leið niður á Ólympíuleikana. Hann hljóp inn á leikvanginn þar sem fram fór keppni í hlaupi, og öryggisvörður stöðvaði hann með orðunum: "Þetta er bara fyrir þátttakendur."
Og Andrés svaraði að bragði: "Já en ég er þátttakönd!"
Góða helgi.
posted by Hildur at 11:21 AM
Eitthvað var ég stressuð og illa fyrir kölluð í gær og þess vegna datt mér í hug að það gæti verið sniðugt að selja sál mína á ebay. Þá gæti ég kannski fengið monnínga og um leið komið mínu stressi og sálarlífi yfir á aðra. Eða eitthvað.
En núna er brjáluðu törninni, sem ég hef staðið í í vinnunni, senn að ljúka og við taka kristilegir vinnudagar frá níu til fimm eins og ráðgert er (í stað níu til tuttugu og tvö á milli andvökunátta). Og þegar fólk spyr mig núna hvað sé að frétta ætla ég ekki að gefa til kynna á séríslenskan máta að það sé allt í blússandi siglingu, það er, með því að segja á innsoginu að það sé allt
brjálað að gera. Nei það verður bara same shit different day og ekki orð um það meir.
posted by Hildur at 11:20 AM
Það eru rosalegar pælingar í gangi hjá mér í dag:

Meira um það síðar.
posted by Hildur at 10:08 AM
Að gefnu tilefniÉg tek öllum athugasemdum við mínum færslum fagnandi, hvort sem hlutaðeigendur eru sammála mér eða að rökræða við mig og hvort sem ég þekki þá eða þekki þá ekki. Eina krafan sem ég geri og þarf stundum að minna á, er að fólk skrifi undir nafni. Ég get ekki skyldað neinn til að gera það en mér fyndist ákveðin kurteisi að virða þá ósk mína. Eina undantekningin sem ég geri er fyrir hann Armstrong nokkurn, en hann er á sérsamningi hér.
posted by Hildur at 12:00 PM
Áðan var ég í 10-11 að kaupa pungsveittan þynnkumat, og þá sá ég áminningu þess efnis að í dag væri alþjóðlegi "kaupum ekkert" dagurinn. Þar kom meðal annars fram að árlega dæju tugþúsundir kapítalista úr offitusjúkdómum í heiminum. Ég hugsaði með mér; ég get svosem alveg sleppt því að kaupa eitthvað í dag og lagt þessu framtaki þannig lið. En svo minnti ég sjálfa mig á að ég er vissulega ekki kapítalisti þó mér þyki einsýnt að ég verði offitusjúklingur ef ég mun borða löðrandi þynnkumat á hverjum degi eftirleiðis. Og kapítalistar deyja víst jafn gjörla og fyrri daginn þótt ég stelist til að slá á sárustu þynnkuna í 10-11 á Kaupum Ekkert daginn. Ó Well.
posted by Hildur at 6:15 PM